Fræðumst um fortíðina með fornleifafræðingum
Á laugardaginn milli klukkan 13 og 16 taka fornleifafræðingar á móti gestum á Þingeyrum en þar hefur uppgröftur verið í gangi undanfarin sumur. Gestir fá leiðsögn og fræðslu á uppgraftarsvæðinu og boðið verður upp á örfyrirlestra í Þingeyrakirkju. Einnig verður hægt að skoða áhugaverða gripi sem fundist hafa frá tímum klaustursins, sem starfrækt var á staðnum á miðöldum. Þá fá krakkar tækifæri til að kynnast störfum fornleifafræðinga og grafa eftir gripum.
Þingeyraklaustur var lengi vel ein auðugasta jörð Íslands en jafnframt gegndi klaustrið mikilvægu hlutverki í ritmenningu Íslendinga á miðöldum. Klaustrið var stofnað árið 1133 og var fyrsta klaustrið sem náði að festa sig í sessi á Íslandi. Það var starfrækt til ársins 1551 þegar það var lagt af í kjölfar siðaskiptanna.
Viðburður þessi er hluti af dagskrá Vatnsdæluhátíðar sem Húnabyggð stendur fyrir um helgina. Mæting er við Þingeyrakirkju en þar eru næg bílastæði og eru allir velkomnir.
Heimild: Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.