Fjárhagsáætlun Blönduósbæjar 2009

Bæjarstjórn Blönduósbæjar samþykkti fjárhagsáætlun 2009 á fundi sínum þann 13. janúar
2009. Áætlunin er unnin við óvenjulegar kringumstæður, efnahagskerfi landsins hefur orðið
fyrir stærri áföllum en áður hefur þekkst og mikil óvissa er í fjármálum ríkisins, sveitarfélaga
og fyrirtækja. Áhrif á rekstur Blönduósbæjar koma fram í minni tekjum auk þess sem
fjármagnskostnaður vex samhliða aukinni verðbólgu.
 
Bæjarfulltrúar á Blönduósi tóku höndum saman um gerð fjárhagsáætlunar og voru samstíga
í þeirri vinnu. Unnin var greining á öllum stofnunum og hagrækt í rekstri í samstarfi við
starfsmenn deildanna. Náðist umtalsverður árangur af þeirri vinnu sem skilar sér í lægri
rekstrarkostnaði. Markmiðið við gerð fjárhagsáætlunarinnar er að treysta stoðir samfélagsins
og halda áfram með þau verkefni sem eru í vinnslu.

Helstu verkefni ársins verða að halda áfram byggingu sundlaugar og er stefnt að því að opna
hana 2010.  Þá verður unnið að endurbótum í dreifikerfi vatnsveitunnar og fráveitunnar m.a. á
Hólabraut og í Brautarhvammi. Haldið verður áfram frágangi skólalóðar og aðkomu að
íþróttahúsi.

Álagningarprósenta útsvars verður 13,28 %.  Álagningastofnar fasteignaskatts eru óbreyttir
en fasteignamat hækkaði um 5%. Sorpgjöld hækka um rúm 20%.
 
Tekjur eru áætlaðar 609 milljónir. Útgjöld með afskriftum er áætlaðar 569 milljónir. Afskriftir
eru áætlaðar tæpar 43 milljónir. Hagnaður af rekstri án fjármagnskostnaðar er því áætlaður
40 milljónir króna. Niðurstöður áætlunarinnar að teknu tilliti til vaxta og verðbóta er 15 milljón
króna tap. Veltufé frá rekstri er 56 milljónir. Gert er ráð fyrir fjárfestingum upp á um 138
milljónir á árinu.
Skuldir við lánastofnanir  eru tæpir 692 milljónir og skuldir og skuldbindingar samtals 831
milljónir. Fastafjármunir eru tæpir 1.117 milljónir og fastafjármunir og eignir eru samtals
1.276 milljónir. Gert er ráð fyrir lántökum upp á 120 milljónir og að afborganir lána verði um
100 milljónir.
/blonduos.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir