Bakvörðurinn Michael Ojo til liðs við Tindastól
Samkvæmt upplýsingum Feykis þá hefur Körfuknattleiksdeild Tindastóls samið við bresk/nígeríska bakvörðinn Michael Ojo að spila með liðinu út tímabilið. Harðnað hefur á dalnum hjá liði Tindastóls nú eftir áramótin og flest liðin í deildinni hafa styrkt sig. Meiðsli hafa líka sett strik í reikninginn og var ákveðið að bregðast við með því að styrkja hópinn.
Í tilkynningu frá Kkd. Tindastóls segir: „Ojo er fjölhæfur bakvörður, 195 cm á hæð og hefur leikið víða um Evrópu þar á meðal Austurríki, Bretlandi, Ítalíu og Svíþjóð. Ojo mun koma til liðsins á næstu dögum og bjóðum við þennan leikmann velkominn í Skagafjörðinn.“
Ojo verður ekki með Stólunum í kvöld þegar þeir mæta toppliði Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni en hann ætti væntanlega að vera mættur til leiks næstkomandi fimmtudag þegar Íslandsmeistarar KR mæta í Síkið. Og þá er bara að vona að Ojo komi með mojo í lið Tindastóls en það virðist hafa glatast í jólafríinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.