„Algert lykilatriði að vera í samstarfi“
2. flokkur kvenna Tindastóls/Hvatar/Kormáks spilaði við Reykjanesúrvalið (RKVG) á Sauðárlróksvelli síðastliðinn föstudag. Leikurinn var hress og skemmtilegur á að horfa og fór fram við fínar aðstæður. Tvívegis náði heimaliðið forystunni en gestirnir jöfnuðu og stálu svo stigunum, sem í boði voru, undir lok leiksins. Lokatölur því 2-3.
Eydís Anna Nielsen kom heimaliðinu yfir á 37. mínútu en Kamilla Ósk Jensdóttir jafnaði tveimur mínútum síðar. Eydís Anna var þó ekki hætt því á 42. mínútu negldi hún á mark gestanna af 25 metra færi og boltinn sleikti þverslána á leiðinni í markið. Staðan 2-1 í hálfleik. Rétt eins og fyrri hálfleikurinn þá var sá seinni jafn og hraður en norðanliðið fékk á sig tvö ódýr mörk eftir skyndisóknir gestanna. Fyrst jafnaði Saga Rún Ingólfsdóttir á 70. mínútu og á 84. mínútu innsiglaði Aníta Bergrán Eyjólfsdóttir sigur RKVG.
Að loknum 13 leikjum hefur sameiginlegt lið Tindastóls/Hvatar/Kormáks sjö stig í B deild 2. flokks. Liðið vann báða leiki sína gegn Vestra Ísafirði, nældi í jafntefli gegn Stjörnunni. Nokkrir stórir skellir litu dagsins ljós í sumar en aðrir töpuðust naumlega. Þannig má segja að liðið hafi varla átt skilið að tapa leiknum á föstudaginn en það er ekki spurt að því í boltanum. Strákarnir í 2. flokki tefldu sömuleiðis fram sameinuðu liði og í C deild eru þeir með 13 stig að loknum tólf leikjum.
Feykir hafði samband við Donna Sigurðsson, sem er hefur umsjón með starfinu í 2. flokki, bæði karla og kvenna, og spurði út í gengi liðanna í sumar. „2. flokks verkefnin hjá okkur hafa gengið vel svona heilt yfir. Þessir flokkar hafa ekki verið starfræktir í einhvern tíma og við lögðum mikla áherslu á að búa til verkefni fyrir sem flesta og helst alla þá sem vilja æfa fótbolta og eru búnir með 3. flokk,“ segir Donni. „Gengið skiptir minna máli í stóra samhenginu, það er að segja úrslitin í leikjunum. Aðalatriðið er eins og áður segir að búa til leiki þar sem leikmenn geta þróað sína hæfileika og haft gaman af saman.“
Ætlum okkur að gera enn betur fyrir þessa flokka
Skiptir máli að halda úti 2. flokki og hvernig hefur gengið að manna liðin í sumar? „Við viljum halda öllum sem það vilja i fótbolta eins lengi og hægt er og að því leytinu er þessi aldursflokkur gríðarlega mikilvægur. Við væntum þess að fá ennþá meiri fjölda bæði í karla- og kvennaflokkana á næsta tímabili því þá er komin reynsla á þetta og við ætlum okkur að gera enn betur fyrir þessa flokka. Það hefur gengið upp og ofan að manna liðin en oftast, ef ekki alltaf, hefur það græjast á einn eða annan hátt. En við vonumst eftir því að fá ennþá fleiri í þessa hópa á næsta ári og næstu árum. En það gerum við með ennþá betra utanumhaldi í kringum þessa flokka.“
Væri hægt að halda úti 2. flokki nema vegna samstarfs við Hvöt og Kormák? „Það er algert lykilatriði að vera í samstarfi með þessa flokka við vini okkar í Hvöt og Kormáki. Mér finnst mjög líklegt að allir séu sammála því að bjóða upp á þetta verkefni fyrir leikmenn á þessum aldri, óháð því hvar þeir búa.“
Er góður andi ríkjandi í hópunum? „Ég hef ekki fundið fyrir öðru en að það sé frábær andi í hópunum og eitthvað til að byggja ennþá meira ofan á með árunum. Núna eru líka félögin búin að vera í samstarfi í sumar niður í 4. flokk, og það með frábærum árangri, og þar munu allir kynnast ennþá fyrr og hóparnir þéttast fyrr og þá vonandi haldast upp í 2.flokk og mögulega lengur.“
Sérðu efnilega leikmenn í 2. flokki sem gætu stigið skrefið upp í meistaraflokk á næstunni? „Í 2. flokki bæði karla og kvenna eru margir efnilegir leikmenn og einnig leikmenn sem eru nú þegar að æfa og spila með meistaraflokki. Að sjálfsögðu eiga allir möguleika á að ná langt með mikilli vinnu og eljusemi og í þessum hópum eru margir leikmenn sem hafa þá eiginleika.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.