Aðventugleði Húnabyggðar var haldin í gær
Það var líf og fjör í Húnabyggð í gær þegar aðventugleðin var haldin í fallegu en köldu veðri fyrir framan félagsheimilið á Blönduósi. Sveitarstjórinn, Pétur Arason, las jólaminninguna þegar krummi stal jólunum. Edda Hlíf Hlífarsdóttir, sóknarprestur í Húnavatnsprestakalli, var með hugvekju.
Það var að sjálfsögðu kveikt á jólatréinu og jólasveinarnir mættu á svæðið. Söngnemendur Tónlistarskóla A-Húnavatnssýslu sungu nokkur jólalög ásamt því að krakkarnir í leikskólanum Stóra Fjallabæ sungu nokkur vel valin lög. Þátttakandinn í Jólastjörnunni, Sigrún Erla, kom einnig og söng gestum til mikillar gleði. Boðið upp á kaffi, kakó og piparkökur. Þennan saman dag var einnig jólamarkaður í húsnæði GN hópbíla að Efstubraut þar sem var fjölbreytt úrval af vörum á góðu verði. Aðventumessa var í Blönduóskirkju þar sem sameiginleg aðventuhátíð var fyrir Auðkúlu-, Blönduós-, Svínavatns-, Undirfells- og Þingeyrarsókn. Myndir teknar af Facebook-síðunni Húnabyggð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.