Aðgerðir gegn riðu - ný nálgun
MAST stendur fyrir upplýsingafundi um nýja nálgun við uppkominni riðu. Verður fundurinn í Félagsheimilinu Hvammstanga, miðvikudaginn 13. desember kl. 13-14.30. Framsögur á fundinum verða frá Sigurborgu Daðadóttur yfirdýralækni og Eyþóri Einarssyni ráðunauti hjá RML. Að þeim loknum verða fyrirspurnir og umræður.
Í frétt á vef MAST í gær er sagt frá því að nú sé niðurskurði vegna riðu á bænum Stórhóli í Vestur-Húnavatnssýslu lokið en riða greindist í skimunarsýni sem tekið var úr kind frá þeim bæ fyrr í haust. Ákveðið var að fara í hlutaniðurskurð í fyrsta sinn og var sú ákvörðun tekin á grundvelli nýjustu rannsókna á riðu hérlendis.
„Arfgerðagreiningar á hjörðinni leiddu í ljós að töluvert var um kindur með verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) var fengin til að útbúa ræktunaráætlun fyrir hjörðina og mögulegar sviðsmyndir skoðaðar áður en tekin var ákvörðun í samráði við bændurna um að fara í hlutaniðurskurð. Þær kindur sem greindust með næmar arfgerðir voru skornar niður, en þær rúmlega 100 kindur sem eru með verndandi og mögulega verndandi arfgerðir voru undanskildar niðurskurði og verða grunnurinn að uppbyggingu á nýrri hjörð með vörn gegn riðuveiki,“ segir í frétt MAST
Fram kemur að ákveðin skilyrði séu sett varðandi það fé sem eftir er á bænum og varðandi uppbyggingu hjarðarinnar. Lesa má um helstu skilyrðin í frétt MAST >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.