16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi
,,Þekktu rauðu ljósin - Soroptimistar hafna ofbeldi” er slagorð íslenskra Soroptimista í 16 daga átakinu að þessu sinni. Átakið sem leitt er af Sameinuðu þjóðunum og er alþjóðlegt hefst 25. nóvember og því lýkur 10. desember.
Um allan heim sameinast hin ýmsu samtök í því að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi með ýmsum hætti en roðagylltur litur er einkenni átaksins, #roðagyllumheiminn, #orangetheworld en hann á að tákna bjartari framtíð.
25.nóvember er dagurinn sem Sameinuðu þjóðirnar völdu til að varpa ljósi á að ofbeldi gegn konum er alþjóðlegt vandamál sem kemur upp í öllum samfélögum og menningarheimum. Ofbeldi gegn konum er aldrei einkamál heldur samfélagslegt vandamál sem hefur áhrif á milljónir kvenna. Vitundarvakningin stendur yfir í 16 daga, fram að mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna þann 10. desember.
Soroptimistar um allan heim leggja lóð á vogarskálarnar til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi, helst með því að fræða konur um alvarleika og birtingarmyndir kynbundins ofbeldis en einnig að vekja samfélög til meðvitundar um þetta vandamál með því að roðagylla heiminn.
Markmið 16 daga átaksins að þessu sinni er að beina athyglinni að forvörnum og fræðslu og hafa Soroptimistar útbúið fræðsluefni um hinar ýmsu myndir ofbeldis sem flokka má í sex flokka: andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi, stafrænt ofbeldi og eltihrellir. Ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því að um ofbeldi sé að ræða í samböndum fólks en það getur átt sér stað óháð kyni, aldri og kynhneigð. Samkvæmt rannsóknum hafa 15% til 20% íslenskra kvenna og 5% til 10% íslenska karla verið beitt ofbeldi af maka sínum eða þeim sem þau voru í ástarsambandi við og líklega búa um 2% íslenskra kvenna við ofbeldi hverju sinni. Íslenskir Soroptimistar, sem eru nú um 600 í 19 klúbbum, hvetja alla til að kynna sér málefnið, fræðast og leggja sitt af mörkum til að stöðva ofbeldi. Soroptimistasystur munu þessa 16 daga vekja athygli meðal annars með því að klæðast roðagylltum fatnaði, selja ýmsan varning, birta greinar og fræðsluefni. Roðagyllti liturinn verður áberandi á byggingum víða um land og einnig á sendiráðumÍslands víða um heim.
,,Þekktu rauðu ljósin - Soroptimistar hafna ofbeldi”
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.