Tækifæri í Tindastóli
Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsir nú skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðs deiliskipulags fyrir skíðasvæðið í Tindastóli. Það er mikið fagnaðarefni að sjá framhald á þeirri góðu uppbyggingu sem átt hefur séð stað í Tindastóli undanfarin ár. Skipulagslýsingin tekur á mörgum mikilvægum væntanlegum framkvæmdum þmt. Aðstöðuhúsi.
Skíðasvæðið í Tindastóli býður uppá að þróa ferðaþjónustu í Skagafirði og nágrenni með spennandi hætti sem nýst getur vetur sem sumar. Svæðið telst gott skíðasvæði og er afar fallegt á sumrin og kjörið til gönguferða t.d. á Tindastól.
Ef horft er til sambærilegra svæða er það staðreynd að styst er fyrir íbúa höfuðborgarinnar í Tindastól og jafnvel gætu þeir allra hörðustu ekið fram og til baka. Það eru því ákveðin tækifæri í fjarlægðinni sem önnur svæði hafa ekki að sama skapi.
Aðstaða á svæðinu þarf þó að batna. Þrátt fyrir að segja megi að Viggó, Rannveig og félagar hafi gert kraftaverk að halda þessari gömlu flugstöð snyrtilegri þá er mikil þörf á byggingu nýs aðstöðuhúss sem nýst getur vetur sem sumar.
Slíkt hús mun án efa auka aðsókn á skíðasvæðið en einnig skapa ný tækifæri fyrir sumarferðaþjónustu. Með aukinni ásókn og umferð styrkist annar rekstur í nágreninu s.s. gisting, matsala o.s.frv.
Ég vil því hvetja aðila í ferðaþjónustu, sveitarfélögin í nágrenninu og fleiri að skoða vandlega tækifærin sem í þessu felast í samvinnu við skíðadeild Tindastóls.
Gunnar Bragi Sveinsson
Króksari og alþingismaður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.