Nokkur orð frá Kvenfélagi Seyluhrepps

Í tilefni af degi kvenfélagskonunnar 1. febrúar langar okkur að segja nokkur orð frá Kvenfélagi Seyluhrepps og hvað á daga okkar hefur drifið síðasta árið. Kvenfélag Seyluhrepps var stofnað 1932 og eru félagar þess 35 talsins. Markmið félagsins eru að styrkja nærumhverfið og hafa jákvæð og uppbyggjandi áhrif á samfélagið sem við búum í.

Eitt og annað hefur á daga okkar drifið á síðastliðnu ári, við höfum styrkt góð málefni í héraði, meðal annars kaup á rafknúnu hjóli á Heilbrigðisstofnun Norðurlands vestra og kaup á meðferðarbekk fyrir endurhæfingardeild HSN ásamt fleiri styrktarverkefnum. Síðastliðin sumur höfum við skipulagt stuttar gönguferðir annað hvert miðvikudagskvöld víðsvegar um Skagafjörð og fórum við í átta slíkar göngur í fyrrasumar. Allir eru velkomnir með í gönguferðirnar, ungir sem aldnir, karlar sem konur og hefur þátttakan verið mjög góð.

Á vordögum héldum við kvenfélagskonur í óvissuferð og ákveðið var að leita ekki langt yfir skammt og heimsóttum við galleríið hjá Sigrúnu Indriðadóttur á Stórhól og héldum svo í Syðra Skörðugil þar sem við fengum létta kynningu á hinum ýmsu smyrslum gerðum úr minkafitu og handtíndum íslenskum jurtum, enduðum ferðina á ljúffengum kvöldverði á Hótel Varmahlíð hjá henni Svönu Páls. Haustvaka kvenfélaganna var að þessu sinni í höndum okkar Seyluhreppskvenna og var hún haldin í Miðgarði í október, þar fengum við Arnrúnu Höllu Arnórsdóttur til að vera með smá fyrirlestur fyrir okkur um framkomu og samskipti við sjálfa sig og aðra og vorum með spjall og veitingar á eftir.

Sameiginlegt jólaball kvenfélags Lýtingsstaðahrepps og Seyluhrepps var haldið milli jóla og nýárs í Miðgarði þar sem dansað var í kringum jólatré og gómsætar veitingar bornar fram að hætti kvenfélagskvenna. Árlega höldum við þrjá fundi, aðalfund, haustfund og jólafund. Auk hefðbundinna fundastarfa blöndum við saman fræðslu og skemmtun fyrir félagskonur.

Ekki má gleyma að einnig höfum við bakað nokkrar kökur, steikt fáeinar pönnukökur og hnoðað í eina og eina kleinu. Að starfa í kvenfélagi er góð skemmtun, félagsskapur og reynsla. Þú kynnist fjölbreytilegri flóru kvenna og samfélagi sem þú annars færir á mis við. Til hamingju með daginn kvenfélagskonur.

Bestu kveðjur frá Kvenfélagi Seyluhrepps.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir