Hátíðar hugvekja þingmanns

Eva Pandora Baldursdóttir
Eva Pandora Baldursdóttir

Hin árlega hátíð ljóss og friðar er handan við hornið. Ég sit í stofunni minni heima á Sauðárkrók með flöktandi kertaljós í vetrarmyrkrinu, úti bylur veðrið á gluggunum og snjórinn hylur götuna. Á þessum tíma hafa forfeður okkar haldið upp á jól langt aftur í aldir, allt frá því að heiðnir menn héldu sína jólahátíð til að fagna vetrarsólstöðum og eftir að Íslendingar tóku kristna trú og fögnuðu fæðingu frelsarans. Margt hefur breyst í tímanna rás en þó hafa ákveðin atriði haldið velli í jólahaldi en það eru gleði, vinátta og kærleikur.

Í ljósi þess sjáum við að engin trúarbrögð á einkarétt á manngæðum. Nú eru fólksflutningar á milli landa orðnir mun algengari en fyrr á tíðum og með því fylgir að fólk flytur með sér sína eigin siði og menningu til nýrra, framandi landa. Oft á tíðum eru þessir fólksflutningar ekki val heldur nauðsyn. Fólk þarf að horfast við þann hræðilega raunveruleika að þurfa að flýja stríðshrjáð heimalönd sín og halda á vit þess óþekkta. Í þessum aðstæðum er það eina sem fólk þráir að komast á öruggan stað með fjölskyldur sínar þar sem þau geta haldið áfram að lifa góðu lífi eins og þau gerðu eitt sinn. Hin vestrænu lönd geta verið þessi örugga höfn en þegar hingað er komið mætir fólki oft skilningsleysi og jafnvel andúð. Siðir og venjur þessa fólks eru frábrugðnar okkar eigin og oft eigum við mannfólkið það til að hræðast það sem kemur okkur spánskt fyrir sjónir. Þessi hræðsla er helsti kveikiþráður fordóma og verðum við að vera meðvituð um þetta ef við ætlum að búa til samfélag þar sem íbúarnir eru hamingjusamir og fólk er óhrætt við að vera öðruvísi.

Notum jólahátíðina sem tækifæri til þess að sýna öðrum velvild óháð uppruna, kynhneigðar, stjórnmálaskoðana eða annarra þátta sem aðgreina okkur. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi en eitt fallegt bros og kurteisi getur breytt miklu. Það þarf ekki að kosta mikið. Munum að ein sól getur lýst upp allan heiminn og við skulum gera okkar besta til þess að lýsa upp tilvist hvors annars.

Ég vil nota þetta tækifæri til að óska öllum gleðilegrar jólahátíðar og gæfuríkrar framtíðar.

Eva Pandora Baldursdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir