Tólf teymi í þjálfun á Norðurlandi vestra í sl. viku

Löggæsluhundur sem var í þjálfun um helgina. Myndir teknar af Facebook-síðunni Lögreglan á Norðurlandi vestra.
Löggæsluhundur sem var í þjálfun um helgina. Myndir teknar af Facebook-síðunni Lögreglan á Norðurlandi vestra.

Það var nóg um að vera hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra í síðastliðinni viku því bæði á Sauðárkróki og á Blönduósi fór fram þjálfun, prófun og vottun löggæsluhunda fyrir allar löggæslustofnanir á Íslandi. Hingað voru mætt tólf teymi og voru lögð fyrir þau, bæði hunda og þjálfara, ýmis verkefni með það að markmiði að þjálfa færni þeirra í leit að sprengjum eða fíkniefnum. Þá þurfa öll teymi að fá þjálfun/prófun í skotfæra- og skotvopnaleit.

Af þessum tólf teymum voru fjögur í endurmati af þeim ellefu sem eru starfandi í dag en gerð er krafa um að allir starfandi hundar og þjálfarar þeirra þreyti próf á hverju einasta ári til að viðhalda starfsleyfinu. Þrjú sprengjuteymi og fimm fíkniefnateymi voru einnig á svæðinu en þau hafa verið í grunnnámi síðan í apríl á síðasta ári og hafa farið fram lotur bæði hér og fyrir sunnan í því námi. Þegar þessi átta teymi, sem eru á námskeiðinu, hafa lokið sínu námi má segja að endurnýjun eigi sér stað í greininni því nokkrir hundanna eru komnir á aldur og fá því að hætta störfum.

Yfirstjórn hundamála hjá lögreglunni er Steinar Gunnarsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra, og fer Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra með umsjón löggæsluhunda á landsvísu í samvinnu við Menntasetur lögreglunnar. Það snýst m.a. um gæðamál og menntun fyrir bæði hunda og menn. Aðspurður hversu oft svona teymi séu notuð í útköllum á Íslandi segir hann að það sé yfirleitt alla daga og þá ýmist í tenglsum við opinberar heimsókir, sakamál og svo við dagleg störf eins og á landsmærum og úti í samfélaginu. "Hundar gera mikið gagn í löggæslunni og mætti nýta hæfileika þeirra mun meir en gert er í dag," segir Steinar. Til gamans má geta að sex hundar voru heiðraðir eftir þessa lotu og voru þrír af þeim undan lögregluhundinum Þoku sem Steinar átti og þjálfaði en hún féll frá á þessu ári.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir