Skátafélagið Eilífsbúar á Landsmóti á Úlfljótsvatni

Skátahópurinn á Landsmótinu. Mynd aðsend.
Skátahópurinn á Landsmótinu. Mynd aðsend.

Landsmót skáta 2024 fer senn að ljúka en það byrjaði þann 12. júlí og lýkur þann 19. júlí. Mótið í ár er á Úlfljótsvatni og eru átta ár liðin síðan síðasta Landsmót var haldið en venju samkvæmt er það á þriggja ára fresti. Eftirvæntingin leyndi sér því ekki hjá mótshöldurum og þátttakendum og var þema mótsins Ólíkir heimar sem var svo skipt upp í fimm svæði, Bergheima, Jurtaheima, Loftheima, Eldheima og Vatnaheima. Skátafélagið Eilífsbúar á Króknum létu sig ekki vanta og fóru 17 manns á mótið. Þar af voru fimmtán krakkar og tveir fararstjórar þau Hildur Haraldsdóttir og Emil Dan Brynjólfsson.

Á mótinu eru samankomnir skátar sem eru frá sjö ára aldri og upp í 25 ára frá 18 löndum og fengu allir að kynnast ekta íslensku veðri fyrstu dagana því það rigndi vel. En það skemmdi ekki fyrir skátunum því þeir kunna að gleðjast og hafa gaman hvernig svo sem veðrið er. Það birti svo til sl. sunnudag, öllum til mikillar ánægju, og er frábært útivistaveður núna síðustu daga mótsins.

Skátafélagið vildi koma áleiðis miklum þökkum til eftirfarandi fyrirtækja; Kaupfélag Skagfirðinga, Fisk Seafood, Steinull, Landsbankinn, Myndun og Steypustöð Skagafjarðar ásamt því að þakka öllum þeim sem styrktu Skátana með kaupum á kleinum í vor og söluvarningi á 17. júní hátíðarhöldunum á Króknum.

Hér að neðan má sjá hvernig svæðið þeirra leit út fyrstu dagana. Rigningamyndir teknar af Sigrún Maríu Bjarnadóttir. Hildur Haraldsdóttir tók hinar. 

 

   

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir