Minkarækt leggst af í Skagafirði um áramót
Á Syðra- Skörðugili í Skagafirði hófst minkarækt árið 1983 en tveimur árum áður hafði verið byrjað á refarækt sem lauk árið 2002. Því hefur minkaræktin þar verið samfellt í fjörtíu ár. Nú er komið að tímamótum, greinin hefur átt undir högg að sækja síðustu átta ár og nú er komið að leiðarlokum. Feykir hafði samband við Einar E. Einarsson, loðdýrabónda á SyðraSkörðugili, sem segir þrátt fyrir allt að framtíðin sé spennandi, „er það ekki þannig að þegar einar dyr lokast að þá opnast aðrar.“
Einar hefur verið formaður SÍL um árabil en við sameiningu búgreinafélaganna við Bændasamtök Íslands (BÍ), fluttist öll hagsmunagæsla greinarinnar frá SÍL til búgreinadeildar loðdýrabænda innan BÍ. Einar er enn formaður SÍL „sem er í raun bara skúffufyrirtæki í dag.“
Hvað eru mörg loðdýrabú starfandi á Íslandi í dag? „Það eru átta bú starfandi á landinu, þar af eru tvö rekin af Urðarketti ehf., það er búið að SyðraSkörðugili og búið í Héraðsdal. Búið í Héraðsdal er hins vegar fjármagnað af dönskum bændum sem við höfum verið í samstarfi við frá upphafi árs 2021. Á þessum tveimur búum hér norðanlands eru um 45% af dýrastofninum í landinu í dag,“ segir Einar.
Hvernig hefur minkaræktun verið háttað síðustu ár á Íslandi eftir að Danir þurftu að skera niður allan sinn stofn fyrir nokkrum árum síðan? „Því miður hafði það mjög skammvinn, og að því er virðist mjög lítil jákvæð áhrif á markaðinn að Danir hættu. Maður hélt kannski um tíma að brotthvarf þeirra hefði þau áhrif að skinnaverð lyftist vegna minna framboðs á markaði en það gerðist ekki. Ég tel því í dag að brotthvarf þeirra hafi haft fleiri neikvæð áhrif en jákvæð og þá vísa ég bæði til þess að Kopenhagen Fur lokar, en þeir voru mjög leiðandi í markaðssetningu skinna, og einnig þess að allt það mikla starf sem unnið var í Danmörku varðandi þróun véla, rannsókna á aðbúnaði dýranna og umhirðu þeirra hefur dregist mjög saman. Ef við horfum á þróun síðustu 20 ára þá var mjög gott skinnaverð á markaði frá árinu 2003 til 2015. Sérstaklega voru árin frá 2007 til 2015 góð. En á þeim árum jókst einnig framleiðslan í heiminum mikið. Fór úr tæpum 50 milljónum skinna í tæplega 90 milljónir skinna á ári. Þessi mikla aukning sprengdi alveg markaðinn og árið 2016 fór skinnaverð á heimsmarkaði undir framleiðslukostnað og hefur verið þar síðan. Ekki var svo heldur gott að fá Covid faraldurinn því í honum stoppaði gjörsamlega öll umsetning á skinnum og hvorki vörur úr þeim eða skinnin sjálf seldust. Það litla sem seldist var langt undir markaðsverði eða í kringum 1/3 af framleiðslukostnaði þegar verst var. Það segir kannski líka eitthvað um þessi síðustu ár að árið 2015 voru á Íslandi 32 minkabændur en í dag eru búin átta. Það er ekki að ástæðulausu að 24 hafa hætt starfsemi á þessu árabili,“ segir Einar.
Hvernig hefur gengið í Danmörku, hafa Danir fengið hjálp frá Íslandi til þess að koma ræktun í gang aftur? „Enn sem komið er hefur ekkert lífdýr verið flutt frá Íslandi til Danmerkur, og reyndar er staðan sú að þar eru aðeins örfáir aðilar byrjaðir aftur. Hvað framtíðin ber í skauti sér veit ég ekki en ég á alls ekki von á að útflutningur lífdýra til Danmerkur raungerist á næstu árum.“
Covid hafði verulegar afleiðingar fyrir greinina en hernaður Rússa? „Bæði Covid faraldurinn og þetta stríð í Úkraínu hafa haft mjög neikvæð áhrif á greinina. Sérstaklega hafði þó Covid faraldurinn neikvæð áhrif þar sem hann stoppaði alla sölu og vinnslu skinna á stærsta markaðssvæðinu sem er Asía með Kína og Suður Kóreu í fararbroddi.“
Hvernig gekk þegar þið fóruð með skinn á uppboð núna síðast? Söluárinu 2023 lauk í september. Meðalverð allra þeirra skinna sem við seldum á árinu var tæpar 4.000 krónur eða tæpur helmingur þess sem það kostar að framleiða skinnið. Söluprósentan var um 80% þannig að í heild er niðurstaða söluársins ekki góð þó þessi söluprósenta sé heldur hærri en árin þar á undan. Staðreyndin er sú að á síðustu átta árum hefur ekkert ár skilað markaðsverði sem er ásættanlegt með hliðsjón af framleiðslukostnaði hvers árs.
Á að halda áfram loðdýraræktun í Skagafirði? „Nei, nú hefur verið tekin ákvörðun um að hætta rekstrinum í lok árs og við það leggst minkarækt af í Skagafirði,“ segir Einar
Framtíðin? „Hún er spennandi, er það ekki þannig að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar? Það er samt óljóst á þessari stundu hvað tekur við en verkefni komandi vikna verður að finna tækifærin.
Ef markaðurinn fer að lagast, skinnaverð hækkar og rekstrargrundvöllur verður betri – finnst þér þá líklegt að minkaræktun fari af stað aftur af krafti? „Einhvern tímann mun markaðurinn lagast en eins og staðan er í dag þá er ég ekki bjartsýnn á að við það muni ræktun minkaskinna aftur fara á fullt. Fyrir því eru nokkrar ástæður eins og t.d. að ekki verður auðvelt að finna lífdýr. Eins þegar búið er að tæma húsin og farga því sem í þeim er verður ekki auðvelt að fá búr, kassa eða tæki aftur. En framtíðin er samt óskrifað blað en ég held að það hlé sem núna kemur verði ansi langt,“ segir Einar að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.