Gerð var tilraunarækt á graskerjum í Skagafirði sl. sumar
Á heimasíðu Bændablaðsins segir að í Skagafirði, nánar tiltekið á Reykjum, hafi verið tilraunaræktun á graskerjum. Sá sem kom því af stað er Helgi Sigfússon en hann náði að rækta upp 40 grasker en hefði með lagni getað ræktað um 200 stk. Helgi er sjálfur búsettur á Reyðarfirði og er búfræðingur að mennt og hefur alltaf haft áhuga á margvíslegri ræktun.
Dóttir hans og tengdasonur búa á Reykjum í Skagafirði og þar er gróðurhús sem var ekki í notkun. Sem ungur maður verandi uppalinn í Keflavík kynntist hann graskerjum snemma því að sjálfsögðu héldu hermennirnir fast í sínar amerísku hefðir og er hrekkjavakan ein af þeim. Það blundaði því lengi vel í
honum að prufa graskersræktun því skilyrðin fyrir þessari ræktun hér á landi eru mjög góð, það sem þarf er kalt gróðurhús.
Þegar Helgi hafði fengið afnot af gróðurhúsinu var ekkert annað í stöðunni en að panta graskersfræin sem hann fékk frá Svíþjóð. Hann sótti sér svo
upplýsingar frá Norður Ameríku en þar er reyndar ræktað á stórum ökrum sem er skiljanlegt. Aðspurður hvort hann hafi áhuga á að halda áfram segist hann alveg geta hugsað sér að fara út í litla framleiðslu og markaðssetja graskerin. En það velti dálítið á hvort hann fái að nota gróðurhúsið áfram. „Þá þyrfti ég líka að dvelja lengur á Reykjum sem væri svo sem ekki vandamál þar sem ég gæti eitthvað hjálpað til líka á bænum. Á meðan plönturnar uxu – og það var gífurlega hraður vöxtur – þurfti að finna réttu moldina, mala hana í taðkvörn ásamt þurri mykju, sem ég safnaði í beitarhólfi holdanautanna á bænum. Þessu blandaði ég saman ásamt tilbúnum áburði í hlutföllum, sem var nú nokkur ágiskun. Og svo hófst daglegt eftirlit, upphenging á klifurþráðum, klipping og ekki minnst vökvun og enn meiri áburður. Ef nokkur planta þarf umönnun, mikið vatn og áburð þá er það grasker og sérstaklega þetta afbrigði sem ég hafði valið og fengið sent," sagði Helgi.
Það verður forvitnilegt að fylgjast með þessari ræktun og vonandi eigum við eftir að sjá íslenskræktuð grasker fyrir næstu hrekkjavöku í Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.