Forystufé og fólkið í landinu

Forsíða bókarinnar. MYND AÐSEND
Forsíða bókarinnar. MYND AÐSEND

Forystufé og fólkið í landinu er ný bók þeirra Guðjóns Ragnars Jónassonar og Daníels Hansen. Útgáfuhóf bókarinnar verður í Kakalaskála í Skagafirði, næstkomandi sunnudag, 12. nóvember klukkan 15:00. Boðið verður upp á upplestur úr nýútkominni bókinni, spjall og sýndar verða myndir úr forystufjárræktinni á Laufhóli svo fátt eitt sé nefnt.

Ætli sé ekki rétt að taka fram að þeir ætla ekki að taka með sér forystufé í Kakalaskála, einhver misskilningur virðist hafa orðið með útgáfuhófið sem verður í Smáralindinni á laugardag, því Pennanum Eymundsson barst fyrirspurn frá dýraeftirlitsmanni Matvælastofnunar í vikunni til að kanna hvort það myndu nokkuð kindur mæta í útgáfufagnað í Smáralind nú um helgina. Nánar má lesa um það mál HÉR.

Meðfylgjandi er stuttur kafli úr bókinni.

Óþægt forystufé

með stórfína afkomendur

Forystufé hefur fylgt íslensku þjóðinni allt frá landnámi og hafa bændur í gegnum aldirnar notfært sér einstaka hæfileika þess. En það hefur ætíð hvílt ákveðin dulúð yfir þessum sérstöku kindum. Guðjón Ragnar Jónasson og Daníel Hansen, forstöðumaður Fræðaseturs um forystufé, hafa í bókinni Forystufé og fólkið í landinu safnað saman aðgengilegum fróðleik um forystufé og fjölda sagna um þessar kindur sem hætta aldrei að koma á óvart með atferli sínu og gáfnafari. Hér á eftir fer stuttur kafli úr bókinni.

Á Laufhóli eru að jafnaði fimm til sex forystukindur. Eysteinn gætir þess vel að forystuærnar verði ekki of margar og bændurnir á Laufhóli telja það algjört frumskilyrði að þær séu spakar og hægt sé að temja þær. Það er í huga þeirra Eysteins og Aldísar algjör forsenda þess að forystukind sé sett á. Þau hjónin eru mjög samhent í fjárræktinni en Aldís hefur mjög gaman af forystufénu og reynir að spekja það þegar það kemur á hús. Eysteinn hefur þó gengið skrefi lengra og reynt að bandvenja forystukindurnar enda stundar hann tamningar samhliða sauðfjárræktinni. Strax við upphaf búskapar þeirra hjóna byrjaði Eysteinn í félagi við Reyni son sinn að bandvenja forystukindurnar, til að mynda sauðinn Sókrates sem sjá má hér á mynd. Þetta var árið 2010, rétt áður en Aldís og Eysteinn tóku við búskapnum og fluttust að Laufhóli. Hornalagið á Sókratesi vakti að vonum athygli en hann er mjög svo fallega úthyrndur. Til gamans var farið með sauðinn á lambadag á Melstað í Óslandshlíð og þar vakti hornalag hans mikla athygli eins og endranær. Gísli Einarsson fréttamaður á RÚV var kynnir á þessum góða degi og sagði að horn Sókratesar væru svo glæst og gleið að þau gætu auðveldlega nýst sem fatahengi bæði á Brekkukoti og Óslandi í senn.

Á meðan Steingrímur hélt enn um búsforráð á Laufhóli aðstoðaði Eysteinn föður sinn við bústörfin og sparaði sig ekki þegar kom að því að elta forystuféð. Haustið 1987 stóð til að fella gamla forystukind, hana Flekku gömlu sem þá var tíu vetra gömul, og nóttina áður var hún því höfð inni í fjárhúsum á bænum sem

kölluð eru Suðurhús. Eins og í mörgum fjárhúsum sem byggð voru um miðja síðustu öld eru á því litlir gluggar sem nær ómögulegt var fyrir venjulega kind að komast út um. Í Suðurhúsum var um að ræða fallegan glerglugga með póstum og opnanlegu fagi sem haft var opið þessa síðustu nótt Flekku. Rifan á glugganum var ekki miklu stærri en svo að lítið lamb gat smeygt sér út um hana.

Daginn eftir er Flekka horfin úr Suðurhúsum og hafði komist út í gegnum opnanlega fagið þótt ótrúlegt megi virðast. Það varð til þess að hún fékk að lifa eitt ár í viðbót, var sædd á fengitíma og átti vorið eftir fallegan svartan hrút sem fékk nafnið Salómon. Um haustið sýndi hann sömu hegðun og móðirin og tókst að strjúka út af túninu rétt áður en áformað var að farga honum. Í vetrarbyrjun tókst Eysteini að handsama hrútsa í fjörunni úti undir Kolkuósi eftir mikið þóf og náðist hann í þriðju tilraun við forvaða í fjörunni. Eysteini leist ekki á að hann gæti einn síns liðs rekið heim lambhrútinn og kindur sem með honum voru, en eins og búmenn á þessum árum var hann ætíð með baggaband í vasanum og batt því um horn Salómons. Hann gerði líka samkomulag við hrútsa um að hann fengi að lifa ef hann teymdist vel á heimleiðinni. Salómon stóð við sinn hluta samkomulagsins og var gefið líf en út af honum er kominn töluverður ættbogi, til dæmis forystuhrúturinn Móri sem brátt verður sagt frá. Milli hans og Salómons eru fimm ættliðir eða átján ár. Það reyndist létt að teyma Salómón, hann varð strax bandvanur og þessi eiginleiki virðist hafa erfst til sumra afkomenda hans. /gg

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir