Headphone-inn þurfti alltaf að vera tengdur / BEGGI ÓLA
Þorbergur Skagfjörð Ólafsson, búsettur í Kópavogi, fæddist 1974 og er Jobbi eins og hann segir sjálfur, kallaður Beggi Óla. Hann ólst upp á Sauðárkróki til 14 ára aldurs hjá ömmu og afa, Svövu og Begga Jóseps á Grundarstígnum. Pabbi hans er Óli Begga, húsasmiður á Trésmiðjunni Björk. Beggi spilar á trommur og slagverk.
„Þegar ég var ungur spilaði ég í mörgum bílskúrsböndum þ.a.m á Sauðárkróki,“ segir Beggi. „Eftir að ég flutti til Reykjavíkur fór ég að spila með hinum og þessum hljómsveitum með alls konar tónlistarstefnur; jazz, popp, rokk, metal, dauðarokk, gospel og svo mætti lengi telja. Mest varð þó úr hljómsveitunum Poppers, Tilþrif og Undryð en með þeim spilaði ég út um allt land og þ.a.m á Sauðárkróki. Þaðan fór ég svo að tromma fyrir nokkra kóra, t.d. Vocal Project, Gospelkór Ástjarnakirkju, Rokkkór Íslands og nú síðast Fjarðartóna og Lögreglukór Íslands. Í dag er ég svo í frábærri hljómsveit sem heitir Reggie Óðins og erum við að taka upp okkar fjórða disk núna með frumsömdu efni.“
Beggi hefur í gegnum tíðina einnig spilað undir hjá nokkrum fremstu tónlistamönnum Íslands, t.d. Páli Óskari, Pálma Gunnars, Bjartmari Guðlaugs, Bjarna Ara, Páli Rósinkrans, Andreu Gylfa og Rúnari Þór. „Einu má ég þó ekki gleyma en síðasta vetur var ég beðinn um að tromma inn á nýtt Tindastólslag sem samið var fyrir körfuna,“ segir Beggi. Það er lagið Stólar sem Hljómsveit Baldvins I. Símonarsonar tók upp ásamt Hólavegsdúettnum en lag og texta samdi Héðinn Sigurðsson.
Hvaða lag varstu að hlusta á? Rooftops, Culture.
Uppáhalds tónlistartímabil? Tónlist frá 1980 og eftir það, aðallega Kiss og Duran Duran.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Gospel tónlist.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Tom Jones og Pops-plöturnar en oftast var kveikt á útvarpinu.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Vínylplata með Kiss, Love Gun.
Hvaða græjur varstu þá með? Gamlar steríó græjur frá afa og ömmu en headphone-inn þurfti alltaf að vera tengdur.
Hver var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Love Gun – annars er ég algör alæta á tónlist.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ungir strákar með Flóna, þoli ekki íslensk dóprapplög, ömurlegur boðskapur fyrir unga fólkið okkar
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Duran Duran, Stuðmenn og 80’s tónlist.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Pink, Adele eða Lauren Diagle.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Til Evrópu á U2 tónleika, verð ég ekki að segja að ég myndi taka konuna mína með.
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Skidrow/Whitesnake.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Phil Collins.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Arena og Rio með Duran Duran.
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
You Say / Lauren Diagle
Hot Fudge / Robbie Williams
Veisses Fleisch / Rammstein
Freedome / Culture
Africa / Toto
Yellow / Coldplay
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.