Stólastúlkur úr leik í VÍS-bikarnum

Fyrsti leikur Tindastóls á nýju körfuboltatímabili var í kvöld en þá fóru Stólastúlkur suður í Garðabæ og spiluðu við lið Stjörnunnar í VÍS bikarnum. Ekki fóru stelpurnar okkar ferð til fjár því heimastúlkur reyndust talsvert öflugri í kvöld og endaði leikurinn 68-43.

Það var ekki að hjálpa liði Tindastóls að Maddie Cannon er enn ekki komin með leikheimild en þar fyrir utan hefur lið Stólastúlkna tekið miklum breytingum frá því í vor. Ksenja Hribljan, Inga Sólveig og Eva Rún skiluðu flestum mínútum í kvöld en hittnin var ekki upp á það besta, liðið skoraði aðeins þrettán körfur í opnum leik (24% nýting) en þær settu niður 14 vítaskot í 20 tilraunum.

Lið Stjörnunnar náði strax yfirhöndinni í leiknum og leiddi 16-6 að loknum fyrsta leikhluta. Stólastúlkur byrjuðu annan leikhluta ágætlega, söxuðu á forskot heimastúlkna og Hera Sigrún minnkaði muninn í 19-16 eftir rúmar þrjár mínútur en þá tók Stjarnan yfir á ný og gerðu tíu stig í röð. Staðan í hálfleik var 31-18. Í síðari hálfleik hélt lið Garðbæinga áfram að auka forystuna og þær fögnuðu að lokum 25 stiga sigri og sæti í næstu umferð keppninnar.

Stigahæst í liði Tindastóls var Ksenja með 15 stig en hún tók fimm fráköst og átti átta stoðsendingar auk þess að fiska sjö villur. Ingibjörg Fjóla var síðan með átta stig og aðrir leikmenn minna. Inga Sólveig hirti níu fráköst og þar af fjögur sóknarfráköst.

Þessi bikarkeppni ku vera keppni síðasta tímabils samkvæmt heimildum Feykis og verður kláruð í hvelli, úrslitaleikurinn settur á 18. september. Deildarkeppnin hefst um næstu mánaðamót og hefur lið Tindastóls leik gegn sameiginlegu liði Hamars/Þórs syðra 2. október kl. 18:00.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir