Stólastúlkur áttu ekki breik í Blika
Það var ekki til að auðvelda verkefnið fyrir gestina að í liðið vantaði Ksenju Hribljan sem tók út leikbann eftir að hafa verið vísað úr húsi gegn KR í leik liðanna í 1. deildinni fyrr í október. Maddie Sutton kom liði Tindastóls í 0-2 og síðan í 3-4 áður en mínúta var liðin. En þá skildu leiðir. Heimastúlkur voru yfir, 30-13, að loknum fyrsta leikhluta en Stólastúlkur náðu að saxa aðeins á forskotið í upphafi annars leikhluta, minnkuðu muninn í 33-20, en þá komu þrjár 3ja stiga körfur í röð frá Önnu Soffíu Lárusdóttur og Blikastúlkur brunuðu fulla ferð áfram. Staðan í hálfleik var 64-27.
Þriðji leikhluti var sígildur hjá liði Tindastóls sem gerði átta stig á meðan heimastúlkur skiluðu 32 stigum á töfluna. Staðan 96-35 þegar fjórði leikhlutinn hófst og þá tókst gestunum loks að vinna leikhluta, 15-18, og laga stöðuna örlítið.
Maddie var atkvæðamest að venju í liði Tindastóls en hún gerði 22 stig og tók 17 fráköst. Eva Rún gerði 14 stig og tók sjö fráköst en aðrir leikmenn skiluðu minna. Blikar voru fremri á öllum sviðum körfuboltans í dag en þó munaði litlu í frákastabaráttunni (45/41), Maddie alveg ólseig þar. Vel af sér vikið hjá stelpunum þar sem Inga Sólveig, sem er stúlkna hæst í liði Tindastóls, spilaði aðeins fimm mínútur í leiknum. Meðalaldur byrjunarliðs Stólastúlkna var 19 ár.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.