Verkfallsbroti mótmælt við leikskólann Ársali á Sauðárkróki

Fyrir utan Ársali í morgun. MYND GG
Fyrir utan Ársali í morgun. MYND GG

Á miðnætti hófust verkföll í níu skólum á landinu en kennarar eiga nú í samningaviðræðum við samninganefnd sveitarfélaganna um bætt kjör en þar hefur lítið þokast að því er virðist. Leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki er einn þessara níu skóla en það var ljóst í gær að sveitarfélagið Skagafjörður ætlaði ekki að virða viðmiðunarreglur KÍ þegar gefið var út að Leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki ætti að vera opinn og lágmarksstarfsemi ætti að vera í leikskólanum. Leikskólakennarar í Ársölum, kennarar í Lundaskóla á Akureyri og Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, voru mætt fyrir utan Ársali í morgun til að mótmæla því að leikskólinn yrði opinn.

„Það sýnir að mínu mati þá virðingu sem sveitarstjórnarfólk í Skagafirði hefur fyrir leikskólastiginu, fólkið sem stendur hérna verkfallsvörð er að berjast fyrir börnin okkar, það sárlega vantar fleiri kennara og það er nauðsynlegt að fjárfesta í kennurum, við vitum það og það vita það allir. Ég er farinn að hugsa hvort við þurfum ekki líka að fjárfesta í betra sveitarstjórnarfólki,“ segir Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, sem stökk frá samningborðinu upp í flugvél þegar ljóst var í hvað stefndi á Sauðárkróki í morgun.

Hérna er gríðarleg samstaða kennara af öllum skólastigum og öllum skólagerðum sem standa í þessu saman. Ásbjörg Valgarðsdóttir, deildarstjóri í Ársölum, segir að það að fá Harald norður og kennara frá Lundarskóla á Akureyri og finna samstöðuna sé ótrúlega dýrmætt í baráttunni og hafa borist baráttukveðjur frá Fjölbrautaskóla Norðulands vestra og grunnskólunum og leikskólakennarar í Ársölum finna vel fyrir samstöðinni. Leikskólastjórarnir hafa gert allt sem þeir geta til þess að standa við bakið á sínu fólki og ófaglærðum, sem eru innandyra í Ársölum, því líður illa að þurfa að vinna í verkfallsbroti.

Samkvæmt sveitarfélaginu átti að vera opið fyrir ákveðinn fjölda barna og það helgast af því að almennir starfsmenn geti gengið í störf deildarstjóra í verkfalli og það er bara ekki svo að mati KÍ og er klárt verkfallsbrot. „Ef sveitarfélögin vilja halda þeim ágreiningi áfram þá er sá lögformlegi vettvangur sem þeir geta leitað í Félagsdóm. Þau hafa áður leitað í þann dóm nýlega og töpuðu því máli og þetta verkfall sem við höfum boðað er löglegt og hvort þau vilja fara þá leið aftur veit ég ekki. Þessi kjaradeila leysist ekki fyrir dómstólum, hún leysist við kjarasamningsborðið og það er sorglegt að ég þurfi að vera hér en ekki við kjarasamningsborðið og það er í boði sveitarfélaganna,“ sagði Haraldur í samtali við Feyki og bætti við: „Við viljum ná samningum sem fyrst svo þetta verkfall verði sem styðst en það er undir sveitarfélögunum komið, ekki samninganefnd sveitafélaganna. Við erum að semja við sveitarfélögin sjálf og það umboð er ekki komið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir