Vala María bakar og fagnar fólki í Áshúsi
Það er komið sumar þó hitastigin séu nú varla til skiptanna en farið er að örla á auknum túrisma. Sumarið kallar á meiri umsýslu á veitingastöðum og kaffihúsum og í Skagafirði er að sjálfsögðu opið á þeim stöðum sem jafnan eru opnir og nokkrir hafa bæst við með hækkandi sól. Þannig er Vala María Kristjánsdóttir nýr verkefnastjóri matarupplifunar í Áshúsi Byggðasafnsins í Glaumbæ en kaffihúsið opnar 20. maí.
Vala er viðskiptafræðingur að mennt en hefur alltaf haft mikinn áhuga á bakstri og matseld og að taka vel á móti fólki.
„Ég er mjög spennt fyrir þessu starfi og hlakka til þess að bera fram kræsingar í anda þess sem tíðkaðist hér áður fyrr. Það voru ófá sumrin sem ég varði hjá ömmu og afa á Sauðárkróki og í sveitinni hjá ömmu og afa á Róðhóli og þar var oft á borðum alls konar kökur og bakkelsi sem verður minn innblástur í veitingaúrvalið í Áshúsi.“ hefur Facebook-síða BSK eftir Völu Maríu sem segist hlakka til að taka vel á móti gestum Áshúss.
Fyrir þá sem eru uppteknir af ættfræði má geta þess að Vala María er dóttir Kristjáns B. Jónssonar frá Róðhóli og Rögnu Hrundar Hjartardóttur af Hólmagrund.