Rabb-a-babb 227: Hrund Péturs
Króksarinn Hrund Pétursdóttir er fædd á því herrans ári 1981 en það ár var Gísli Rúnar Jónsson leikstjóri Áramótaskaupsins sem kannski er helst minnisstætt fyrir þá sök að það var í fyrsta sinn sem þeir Dolli og Doddi brölluðu saman. Fyrsta Indiana Jones bíómyndin, Raiders of the Lost Ark, kom á tjaldið þetta ár sem og Bond-myndin For Your Eyes Only. Já og líka The Incredible Shrinking Woman með Lily Tomlin og Charles Grodin í aðalhlutverkum en myndin fjallaði um konu sem minnkaði og minnkaði í kjölfarið á efnaskiptum í förðunarefnunum sem hún notaði. Sennilega ekki byggð á sannri sögu.
Hrund er gift, fimm barna móðir auk þess sem hundurinn Askur er hluti af fjölskyldunni. „Ég er dóttir Péturs Valda. og Rögnu en þau gerðu sitt allra besta í að ala mig upp hér á Króknum,“ segir Hrund sem starfar í dag sem forstöðu-maður fyrirtækjasviðs hjá Byggðastofnun. Aðspurð um hvað sé í deiglunni svarar hún: „Sumarið með öllu því skemmtilega sem því fylgir, vonandi meiri frítími til að vera með fjölskyldu, vinum og auðvitað litla ömmustráknum mínum.“
Hvernig nemandi varstu? Góður nemandi að því leiti að ég var fljót að læra. Hef örugglega reynt á þolinmæði einhverra.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Þegar þurfti að sauma pilsið mitt fast við sokkabuxurnar því ég var búin að grennast frá því það var keypt. Glími ekki við sambærileg vandamál í dag.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Dýralæknir.
Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Átti ekkert uppáhalds en tók vissulega Barbie tímabil sem var einstaklega skemmti-legt.
Hvert er uppáhalds leikfangið þitt í dag? Líklega síminn minn sem ég eyði óþarflega miklum tíma í.
Besti ilmurinn? Náttúran á sumarmorgni.
Hvar og hvenær sástu nú-verandi maka þinn fyrst? Fékk far með honum á milli staða. Hann var á hvítum Golf sem hann er enn sannfærður um að hafi verið frábær bíll. Ég var ekki heilluð í það skiptið.
Hvernig slakarðu á? Liggjandi heima í sófanum. Helst með hundinn mér við hlið.
Hvaða seríu varstu síðast að hámhorfa? Er að horfa á seríu þrjú af Bridgerton og mæli bara með öllum seríunum.
Hvað bíómynd var í mestu uppáhaldi þegar þú varst unglingur? Reality Bites með Winona Ryder, Ethan Hawke og Janeane Garofalo.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Það er enginn einn en ég verð alltaf mjög stolt þegar Skagfirðingar standa sig vel í íþróttum. Það er eitthvað við það sem fær mann til að líða vel í hjartanu.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Elda mat og baka kökur.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ég hef óbilandi sjálfstraust í eldhúsinu og finnst bara allt frábært sem ég reiði fram.
Hættulegasta helgarnammið? Ís með allt of mikilli íssósu.
Hvernig er eggið best? Linsoðið.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Hvatvísi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Hroki.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Áhyggjur hafa aldrei gert gagn er eitthvað sem litli bróðir minn sagði við mig um árið þegar mömmuhjartað fór á flug. Hef reynt að lifa eftir því síðan.
Hver er elsta minningin sem þú átt? Líklega um þriggja ára þegar kuldaboli beit frænda minn. Lofaði sjálfri mér að fara aldrei vettlingalaus út eftir það.
Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Í dag væri það líklega Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísrael. Ég myndi binda enda á þjóðarmorð á Gaza.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Hef verið að lesa bækurnar hennar Sigríðar Hagalín Björnsdóttur. Hún er góður penni og get mælt með henni.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Væri svo til í að upplifa Sauðárkrók u.þ.b. 1950, spjalla við fólkið og vita hvort lífið var einfaldara þá.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Óhemjugangur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.