Prófessor Skúli fyrsti Íslendingurinn sem hlýtur Beverton orðuna
Skúli Skúlason, prófessor við Háskólann á Hólum og Náttúruminjasafn Íslands, hlýtur í ár þann heiður að vera sæmdur Beverton orðu (Beverton Medal) Breska fiskifræðifélagsins (Fisheries Society of the British Isles). Hún er veitt einstaklingi fyrir framúrskarandi rannsóknir og langan feril er snýr að fiskum og nýtingu þeirra. Skúli er fyrsti Íslendingurinn sem fær þessi verðlaun.
Í frétt á heimasíðu Háskólans á Hólum segir að Breska fiskifræðifélagið sé alþjóðlegt félag sem styður við fræðastörf er tengjast fiskum, fiskalíffræði og nýtingu fiska. Félagið gefur út tímaritið Journal of Fish Biology og veitir styrki til rannsókna en til þess að vekja athygli á fiskrannsóknum og til að heiðra framúrskarandi vísindamenn veitir félagið heiðursverðlaun árlega.
„Rannsóknir Skúla hafa snúist um að skilja uppruna og eðli fjölbreytileika innan stofna ferskvatnsfiska. Hér á landi, eins og á öðrum norðlægum slóðum, eru fáar tegundir fiska í ferskvatni, en þeim mun meiri fjölbreytni innan tegundanna. Þannig hafa tegundirnar þróast til þess að nýta sér ólík búsvæði ferskvatnsins og endurtekið hafa aðskilin afbrigði og jafnvel nýjar tegundir myndast. Í rannsóknum sínum hefur Skúli, ásamt stórum hóp af samstarfsfólki og nemendum, reynt að skilja hvað það er í umhverfinu annars vegar og í fiskinum sjálfum hins vegar sem leitt getur til þessar þróunar. Auk þess hefur Skúli unnið að því að móta vísindakenningar sem geta lýst þróunarfræðilegum ferlum í síkvikri náttúru og þannig hefur hann haft mótandi áhrif á rannsóknir fjölmargra rannsóknahópa, innan og utan Íslands. Einnig hefur Skúli unnið að því að auka þekkingu almennings og þeirra sem taka ákvarðanir varðandi fjölbreytileika fiska, og líffræðilega fjölbreytni almennt, og stuðla þannig að betri verndun og upplýstri stýringu nýtingar,“ segir í fréttinni.
Verðlaunin verða afhent á ráðstefnu Breska fiskifræðifélagsins í Bilbao í júlí. Þar mun Skúli flytja heiðursfyrirlestur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.