Kynningarfundur Target Cicurlar - áhrifaríkar sjálfbærniaðgerðir og auðveldari ákvarðanataka
Verkefnið Target Circular stendur fyrir kynningarviðburði á stefnumótunaraðferð fyrir frumkvöðla og fyrirtæki á Gránu, Sauðárkróki, miðvikudaginn 23. Október og hefst viðburðurinn klukkan 10:30. Kallað er eftir þátttöku frá ráðgjöfum um allt land sem veita aðstoð til frumkvöðla og fyrirtækja.
Verkefnið byggir á nýlegum rannsóknum á því hvernig fyrirtæki geta nýtt sér vísindalegri nálgun í ákvarðanatöku og miðar að því að hjálpa litlum og meðalstórum fyrirtækjum að innleiða áhrifaríkar sjálfbærniaðgerðir og auðvelda ákvarðanatöku.
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) hefur á undanförnum vikum unnið með 6 frumkvöðlum/fyrirtækjum á svæðinu við að prófa þessa nýju aðferð og hafa undirtektir verið góðar.
Á viðburðinum munu íslenskir frumkvöðlar, sem tóku þátt í verkefninu, deila sinni reynslu og lærdómi, þar sem lögð verður áhersla á þeirra ferðalag og niðurstöður. Sérfræðingurinn Stephen Barry Hannon frá Munster Technology University (MTU) mun kynna áhrifarík verkfæri sem stuðla að auknu hringrásarhagkerfi og bæta sjálfbærni í rekstri. Að lokum mun Niall O'Leary frá MTU leiða sérsniðna þjálfun fyrir ráðgjafa sem vilja tileinka sér aðferðafræðina og dýpka þekkingu sína á þessum sviðum.
Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, verkefnastjóri Target Circular fyrir hönd SSNV, segir að markmið verkefnisins væri ekki aðeins að auðvelda ákvarðanatöku með skýrari upplýsingum heldur einnig að bæta umhverfisárangur fyrirtækja.
„Við viljum veita fyrirtækjum verkfæri til að taka upplýstari ákvarðanir og aðstoða þau við að skilja hvar þau standa með tilliti til sjálfbærni og veita þeim verkfæri til að gera betur. Með því að veita skýrari gögn og tillögur að aðgerðum getum við stuðlað að hagkvæmari ákvörðunum og meiri sjálfbærni innan fyrirtækja“ segir Sveinbjörg.
Verkefnið er samstarfsverkefni Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Munster Technology University á Írlandi, Centria University of Applied Sciences á Finnlandi, Kokkolanseudun Kehitys á Finnlandi og Norinnova í Noregi. Verkefnið er fjármagnað að hluta til af Interreg Northern Periphery and Arctic.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.