Á að banna komur skemmtiferðaskipa í Skagafjörð?
Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins skreið inn Skagafjörð í þokudumbungi og norðangarra í morgun og hafði varpað akkerum um kaffileytið. Farþegar sem höfðu valið að stíga fæti á fasta jörð voru ferjaðir í land í smábátahöfninni á Króknum, vel dúðaðir og klárir í slaginn. Sumir stigu um borð í langferðabifreiðar og taka þátt í einhverjum ævintýrum í Skagafirði í dag en aðrir röltu í fjöruna eða um Krókinn.
Hvað sem verður nú sagt um komur skemmtiferðaskipa þá óneitanlega gleðja þessi glæsilegu ferlíki augað og þeim fylgir stemning og sömuleiðis verkefni fyrir ferðaþjónustubransann.
Ekki eru þó allir á eitt sáttir. Á Skín við sólu segir Steindór Árnason sjómaður í kommenti að að hans mati ætti að banna þessar skemmtiskipakomur. „Því þeim fylgir nær alltaf svona kalsaveður.“
Menn bara með húmorinn í lagi...
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.