Fiskréttur rétt eftir jólin

Matgæðingarnir Guðmundur og Svala
Matgæðingarnir Guðmundur og Svala

„Okkur þykir gott að bera fram fiskrétt svona rétt eftir jólin en okkur finnst fiskur mjög góður og er hann oft á borðum hjá fjölskyldunni. Í eftirrétt bjóðum við upp á uppáhalds eplaköku til að slá á eftirköst eftir hátíðarnar,“ sögðu Svala Guðmundsdóttir og Guðmundur Ólafsson á Sauðárkróki sem voru matgæðingar vikunnar í öðru tölublaði Feykis árið 2017. 

Aðalréttur
Fiskréttur

2 ýsuflök
½ sæt kartafla (meðal stór)
1 rauðlaukur
1 epli
1 paprika
karrý
½ dl rjómi
ostur
rasp

Aðferð:
Ýsunni er velt upp úr krydduðu heilhveiti og léttsteikt á pönnu í olíu. Sett í eldfast mót.
Sæt kartafla, rauðlaukur, epli og paprika skorið niður í bita og er það einnig léttsteikt á pönnu og karrý stráð yfir. Bætið svo rjóma út á pönnuna og látið malla í smá stund saman. Að því búnu er þessu hellt yfir fiskinn, osti stráð yfir ásamt raspi. Sett inn í ofn í 20-30 mínútur. Okkur þykir gott að hafa með þessu hrísgrjón og salat.

Eftirréttur
Heit eplakaka borin fram með rjóma

150 g smjör/smjörlíki
200 g sykur
150 g hveiti
2 tsk. vanillusykur
1 tsk. lyftiduft
3 egg
4 epli
kanilsykur
apríkósusulta

Aðferð:
Smjör og sykur hrært vel saman og síðan eru eggin sett út í, eitt og eitt. Þurrefnum blandað saman við og sett í smurt eldfast form. Eplin skorin í báta og sett ofan í deigið. Stráið kanilsykri yfir kökuna. Bakað í 50-60 mínútur við 175°C.
Þegar 10 mínútur eru eftir af bökunartímanum er kakan tekin út og apríkósusultunni, sem búið er að þynna út með 2 msk. af heitu vatni, smurt yfir . Bakað áfram í 10 mínútur. Gott er að bera kökuna heita fram með rjóma/ís en hún er líka góð köld.

 

Verði ykkur að góðu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir