Styrktarsjóðurinn varð af mikilvægum tekjum
Vegna verkfalls SFR þurfti að aflýsa hinu árlega balli Styrktarsjóðs Húnvetninga sem halda átti í Félagsheimilinu á Blönduósi sl. laugardag. Vegna verkfallsins var ekki hægt að gefa út leyfi til dansleikjahaldsins og ekki fékkst undanþága til þess.
Styrktarsjóður Húnvetninga var stofnaður þann 16. mars árið 1974 og er markmið sjóðsins að veita héraðsbúum hjálp þegar óvænta erfiðleika ber að höndum. Að sögn Höskuldar B. Erlingssonar, formanns stjórnar sjóðsins, kemur það sér afar illa fyrir sjóðinn, enda verður hann af miklum tekjum.
Í samtali við RÚV fyrir helgi sagði Höskuldur: „Eins og staðan er núna þá verður dansleikurinn ekki, enda skipulagður með miklum fyrirvara. Við vorum heppin að hljómsveitin Von sem átti að leika á ballinu, var svo almennileg að senda ekki á okkur reikning. Við kunnum þeim þakkir fyrir það."
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.