Karlakórinn Heimir á faraldsfæti - Uppfært, tónleikum Heimis á Blönduósi frestað!
Vegna veðurútlits hefur verið ákveðið að fresta tónleikum Karlakórsins Heimis sem fyrirhugað var að halda á Blönduósi fimmtudagskvöldið 20. febrúar. Heimismenn eru þó ekki af baki dottnir, og munu heimsækja Blönduós við fyrsta tækifæri, það verður nánar auglýst síðar.
Í Feyki, sem kom út í dag, er viðtal við Atla Gunnar Arnórsson, formann Karlakórsins Heimis þar sem eftirfarandi kemur fram og er þá dottið úr gildi með ofangreindri frestun:
Karlakórinn Heimir heldur tónleika í Blönduósskirkju annað kvöld, 20. febrúar kl. 20:30 þar sem boðið verður upp á fjölbreytta efnisskrá, meðal annars þætti tileinkaða Stefáni Íslandi. Í lok næstu viku verða svo Eyfirðingar heimsóttir.
„Það sem er framundan hjá okkur eru tónleikar á Blönduósi á fimmtudagskvöld svo verðum við í Laugaborg í Eyjafirði 28. febrúar. Þann 13. mars verðum við í Langholtskirkju á föstudagskvöldi og daginn eftir setjum við stefnuna á Vestmannaeyjar, hvort sem það tekst eða ekki. Almættið verður að ráða því hvort verði fært eða ekki. Veðrið setur svip á alla skipulagningu þessa dagana og erfitt að plana nokkuð fram í tímann með færð að gera,“ segir nýkjörinn formaður kórsins, Atli Gunnar Arnórsson.
Hann segir það árvisst að kórinn bregði undir sig betri fætinum í mars og haldi suður yfir heiðar og syngi þá yfirleitt í Reykjavík og svo annað hvort í Borgarfirði, Suðurnesjum eða á Suðurlandi. Hefur kórinn yfirleitt fengið góða aðsókn í þessum ferðalögum og tekist vel að sögn Atla.
Hann segir að nú sé rykið dustað af dagskrá sem kórinn var með fyrir nokkrum árum um Stefán Íslandi. „Við ætlum að rifja hana upp og með okkur er mikill stórtenór, Þorgeir Andrésson, sem söng með okkur á sínum tíma í þessari dagskrá og lofar góðu.“
Atli segir að um 70 karlar séu á skrá hjá kórnum og með fjölmennasta móti. Margir ungir söngvarar eru þar á meðal og sumir enn í efstu bekkjum grunnskóla.
„Það er eitthvað sem við erum afskaplega ánægðir með, hvernig til hefur tekist hjá okkur, að höfða til yngri manna annars lognast þetta út af með tímanum.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.