„Mér fannst þetta ofboðslega gaman“
Hvorki Guðni Þór né Óskar Smári munu verða í brúnni hjá Stólastúlkum þegar þær spretta úr spori næsta sumar í Lengjudeildinni. Feykir hafði áður sagt frá því að Guðni þjálfari væri fluttur suður og í gær tilkynnti knattspyrnudeild Tindastóls að samningur Óskars Smára yrði ekki endurnýjaður. Það verður því nýr þjálfari sem tekur við liði Stólastúlkna. Feykir sendi Óskari Smára nokkrar spurningar til að tækla og það stóð ekki á svörum á þeim bænum frekar en fyrri daginn, enda kappinn alltaf hress og jákvæður.
Auk þess að þjálfa kvennalið Tindastóls í sumar hefur Óskar komið inn á í nokkrum leikjum karlaliðsins en hann hefur spilað rétt tæplega 100 leiki fyrir Stólana. Í heildina á hann 153 leiki í meistaraflokki með liðum Tindastóls, Drangeyjar, Kormáki/Hvöt, Álftanesi og Hamri. Í þeim hefur hann skorað 16 mörk. En hendum á hann nokkrum spurningum...
Nú hefur stjórn knattspyrnudeildar ákveðið að bjóða þér ekki framlengingu á samning. Ertu draugfúll eða hefurðu skilning á ákvörðuninni?„Ég er kannski aðallega bara svekktur að fá ekki sénsinn á því að koma liðinu aftur í þá deild sem mér finnst að liðið hafi sannað að það eigi heima í. En ég skil stjórnina vel og virði ákvörðun hennar, enda ekkert nema toppfólk sem situr í stjórn Tindastóls í knattspyrnu. Ég treysti því að þau ráði inn góðan og færan þjálfara sem heldur þeim uppgangi sem hefur átt sér stað í kvennaknattspyrnu á Sauðárkróki áfram gangandi.“
Var eitthvað sem kom á óvart í sumar við þjálfun liðsins eða frammistöðu?„Nei nei, það kom mér svosem ekkert eitthvað brjálæðislega mikið á óvart. Mér fannst stelpurnar komast á það stig að geta spilað í efstu deild en að minu mati er stærsta bilið í islenskri knattspyrnu á milli fyrstu deildar og efstu deildar í kvennaboltanum. Fyrir mig persónulega skilar þetta tímabil inn mikilvægri og dýrmætri reynslu. Jafnframt var þetta tímabil alveg hrikalega skemmtilegt þrátt fyrir að við næðum ekki þeim markmiðum sem við settum okkur.“
Var eitthvað sem ykkur þjálfurum fannst að þið hefðuð getað gert betur?„Já, alveg klárlega. Við tókum okkur reglulega í naflaskoðun, fórum yfir hvað við hefðum getað gert betur og reyndum að lagfæra það. Við vissum fyrir sumarið að þetta yrði erfitt tímabil, það yrðu erfiðir leikir en okkur fannst stelpurnar standa sig feykilega vel og eiga allt það hrós skilið sem þær hafa fengið.“
Nú eruð þið Guðni Þór pínu ólíkar týpur. Hvernig var samstarfið?„Samstarfið var frábært. Við erum vissulega mjög ólíkir en báðir meðvitaðir um það. Við unnum vel saman, rifumst vissulega alveg reglulega og vorum alls ekki sammála oft á tíðum, en það er 100% eðlilegt og þessvegna var gott að hafa góðan aðstoðarþjálfara í Konna sem var oft úrslitaatkvæðið. Þannig að samstarfið var í raun bara geggjað og fyrir mér voru það algjör forréttindi að fá að starfa með Guðna, enda er hann risastór partur af þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað á Sauðarkróki undanfarin ár.“
Hvernig fannst þér sumarið með Stólastúlkum, var þetta spennandi og skemmtilegt eða erfitt og stressandi?„Mér fannst þetta ofboðslega gaman. Vissulega mikill tilfiningarússibani oft á tíðum, við fórum hátt upp eftir sigra, langt niður eftir töp en þegar öllu er á botninn hvolft þá bara var þetta timabil ofboðslega skemmtilegt með þessum frábæra hópi,“ segir Óskar Smári og bætir við:„Að lokum vil ég fá að þakka fyrir mig, og þakkir til allra sem komu að meistaraflokk kvenna í sumar. Meðþjálfarar, leikmenn, stuðningsmenn, sjúkraþjálfarar, kvennaráð, stjórnin og bara allir – takk kærlega fyrir mig! Ég hlakka til að fylgjast með liðinu á næstu árum, fullt af efnilegum leikmönnum að koma upp í meistaraflokk og framtíð liðsins björt. Ég sé ykkur á vellinum næsta sumar!“
Feykir þakkar Óskari Smára gott samstarf í kringum boltann og trúir ekki öðru en að baróninn af Brautarholti komist í 100 leikja klúbbinn hjá karlaliði Tindastóls áður en yfir lýkur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.