Leitar eftir aðstoð til að brúa bilið í kanínuræktinni
Á Syðri-Kárastöðum skammt norðan Hvammstanga er eina kanínubú landsins þar sem kanínur eru ræktaðar til manneldis. Fyrirtækið Kanína ehf. var stofnað í október 2011 og er Birgit Kositzke aðaleigandi þess. Hún kemur frá Þýskalandi og er kanínukjöt hluti af matarmenningunni þar. Þar sem Birgit langaði að búa áfram á Íslandi ákvað hún að stofna sitt eigið fyrirtæki og fylgja viðskiptahugmynd sinni eftir, en nú skortir fjármagn til að brúa bilið þar til reksturinn fer að standa undir sér.
Við stofnun búsins þurfti að byrja alveg frá grunni og fjögur ár eru því ekki langur tími til að koma rekstri á koppinn. Stofn- og rekstrarkostnaður verið mikill, auk þess sem Birgit hefur þurft að sækja námskeið og verða sér úti um öll tilskilin leyfi, m.a. sláturleyfi. Nýlega fór Birgit af stað með fjáröflun á fjárfestingavefnum Karolina Fund. Auk þess bíður hún fólki að panta sér kanínuskinn og greiða þau fyrirfram.
„Ég er alin upp í fjölskyldu sem hefur alla tíð átt kanínur og finnst þessi búskapur eiga vel heima á Íslandi. Markmið mitt er að framleiða hollt kjöt og skapa dýrunum besta umhverfi sem hugsast getur. Í dag er ég með rúmlega 400 kanínur, sem er stærsti kanínubústofn á Íslandi í dag. Því miður hefur fjármögnun á búinu gengið illa undanfarið, þar sem afköst eru ekki ennþá í samræmi við kostnaðinn. Það væri synd að hætta núna,“ segir Birgit. „Þess vegna er ég að leita aðstoðar til að þurfa ekki að slátra öllum dýrum og gefast upp, þrátt fyrir að allt stefni í það að búið fari að gefa nóg af sér eftir nokkra mánuði.“
Slátrað er einu sinni í mánuði í Sláturhúsi KVH á Hvammstanga. Vorið 2015 fór kanínukjöt að fara reglulega á markað. Hægt er að kaupa kjötið í Matarbúrinu við Grandagarð í Reykjavík. Þá bjóða sérvalin veitingahús upp á rétti úr kanínukjöti, t.d. Kolabrautin í Hörpunni, Bláa Lónið veitingastaður og Sjávarborg á Hvammstanga.
Birgit hefur áhuga á að komast í samstarf við aðila sem geta sinnt markaðsaðgerðum, þar sem hún er mjög bundin yfir kanínuræktinni, enda tekur nokkra klukkutíma á dag, allt árið, að sinna ræktuninni. Hún er afar þakklát öllum sem veitt hafa verkefninu styrki til þessa og sýnt tiltrú á það. „Án styrkja væri hugmyndin um að rækta kanínur til manneldis ekki orðin að veruleika. Ég er bjartsýn á að þetta takist,“ segir Birgit að lokum.
Vefsíða Kanínu ehf. er kanina.is og lesa má um verkefnið á Karolina Fund. Til að kaupa kanínuskinn er hægt að hafa samband á netfangið info@kanina.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.