Leikskólastjórinn kvaddi eftir 28 ára farsælt starf
Húnahornið segir frá því að Jóhanna Guðrún Jónasdóttir hafi nýlega látið af störfum sem leikskólastjóri Barnabæjar á Blönduósi eftir farsæl 28 ár í starfi. Samstarfsfólk hennar efndi af því tilefni til kveðjuhófs þar sem Jóhönnu var þakkað gott samstarf og henni óskað velfarnaðar á nýja vinnustaðnum sínum, Blönduskóla. Þá var henni veitt táknræn gjöf frá starfsmannafélagi Barnabæjar, styttur sem sína samstöðu og kynslóðir.
Það var árið 1992 sem Jóhanna Guðrún ákvað að flytjast til Blönduóss og taka við leikskólastjórastöðu eftir að hafa lokið námi í Fóstruskólanum.
Í frétt Húnahorns segir: „Í kveðjuávarpi starfsfólks segir að því finnist táknrænt að gefa Jóhönnu Guðrúnu stytturnar, sem sína samstöðu, að standa með hverri annarri, „eins og þú hefur gert við okkur á öllum tímum bæði í starfi og einkalífinu. Alltaf verið okkur við hlið þegar á þurfti að halda. Það er ekki sjálfsagt að hafa þannig yfirmann,“ segir í ávarpinu.
Ein styttan táknar kynslóðir enda hefur Jóhanna kennt nemendum sem síðar urðu foreldrar og verið með kynslóðir í vinnu, ömmu, mömmu og dóttir. Jóhanna fékk að auki vísur sem sérstaklega voru ortar til hennar í tilefni tímamótanna. Vísurnar, sem eru níu talsins, orti Berglind Björnsdóttir og er ein þeirra svona:
Við leikskólapæjur sendum kærleiksknús
og árin öll viljum þér þakka,
því Barnabær er ekki bara hús
heldur dýrðin öll í einum pakka.“
Nánar má lesa um þetta á Húna.is >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.