Kvenbuxnatískan í haust er með dass af 70‘s áhrifum

útvíðar og beinar buxur í hausttískunni
útvíðar og beinar buxur í hausttískunni

Ég fékk svolítið skemmtilegt komment um mig frá  vini mínum hér á Sauðárkróki.  „Bíddu, er Sigga farin að skrifa um tísku? Sé ég hana ekki yfirleitt ómálaða í íþróttafötum?“ Sem er alveg rétt. Ég hef síðan ég flutti norður dottið í þæginlega fatnaðinn en hef reyndar aldrei verið mikið fyrir það að hafa mig til í framan þó svo að ég þurfi að fara út á meðal fólks. Ég verð samt að viðurkenna að ég passaði ekki lengur í fötin mín eftir að hafa eignast barn og það að vera í fæðingarorlofi neyddi mig aðeins niður á jörðina í þessum málum, sem var í góðu lagi, sérstaklega hvað fötin varðar. Því að eyða hátt í 50-70 þúsund krónum í hverjum mánuði er bilun. En þegar freistingarnar eru til staðar þá er það mjög auðvelt.

En talandi um þæginlegan fatnað þá held ég, þegar ég lít nokkur ár aftur í tímann, að leggingstískan sé sú tíska sem að mér hryllir mest við, og er það ekki af því að mér finnst hún ljót. Reyndar eru Harem buxurnar sem allir virðast eiga í dag, meira að segja mamma, sé svolítið á mörkunum að komast með hælana þar sem leggings er með tærnar í þeim málum. Ég hef allavega aldrei fitnað jafn mikið á einni tískubólu, þá án þess að vera ólétt. Það má því segja að ég hafi verið mjög ánægð þegar buxur komu aftur í tísku en þegar ég dróg fram gömlu Diesel gallabuxurnar kom áfallið, þá var mál að fara í allsherjar átak! Því leggingsbuxurnar virtust hafa stækkað með mér og ég fann ekkert fyrir því þegar nokkur aukakíló komu sér vel fyrir á líkamanum. En ég er nú ekki að fara að tala um sprikl í ræktinni heldur buxnatískuna. Hún er svolítið margslungin og gaman að skoða allt sem er í boði.

Munstraðar buxur sterkar inn í haust

70´s tískan er mjög áberandi í bland við allt þetta klassíska og það sem hefur verið seinustu misseri, þá sérstaklega í buxnatískunni, hún er svo flott. Við erum að tala um uppháar mittisbuxur sem eru beinar niður, 7/8 kvartbuxur og öll fallegu munstrin sem eru í boði. Köflótt og röndótt er mjög áberandi og ef þú kaupir buxur sem eru með munstri, passaðu þig að missa þig ekki í að klæðast annarri flík með öðru heilmunstri. Ég veit vel að „denim on denim“ var í tísku fyrir stuttu síðan en það er bara allt annað en að vera í köflóttu við köflótt, það getur komið út sem tískuslys. Ekki má svo gleyma fallegu útvíðu buxunum sem ég talaði um í seinasta pistli sem eru að koma sterkar inn með haustinu.

Gallabuxur hafa fengið að fljóta svolítið með undanfarin ár og þá einna helst í „boyfriend cut“ sniðinu en það hafa alveg verið í boði falleg og kvenleg snið, þá aðallega í teygjanlegu efnunum, ekki þessu harða gallaefni. En núna eru þær rifnar, já ég skrifaði rifnar og aðallega á hnjánum! Ég held reyndar að yngri kynslóðin sé meira  sek um að ganga í þeim og tel ég mig vera of gamla til að klæðast þessu í dag, þó ung sé. Ég hef nefnilega gengið í gegnum samskonar tísku en það var fyrir nokkuð mörgum árum síðan og kvótinn minn fyrir rifnum fötum orðinn fullur.

Góð saga um nýju flottu rifnu gallabuxurnar

Vinnufélagi minn og mjög góð vinkona mín í dag bjó hjá ömmu sinni í Reykjavík þegar ég var að byrja að vinna hjá NTC hf. Hún var svo heppin að amma hennar þvoði af henni fötin, þvílíkur lúxus,  og einn daginn þegar hún kom heim úr vinnu gaf  amma hennar sig á tal við hana og tjáði henni að hún hefði gert við gatið á buxunum. Vinkona mín þakkaði henni fyrir en áttaði sig ekkert á því hvaða gat hún hefði lagað. Það var ekki fyrr en hún fór í nýju Diesel gallabuxurnar sínar sem kostuðu yfir 20 þús. á sínum tíma, að hún áttaði sig. Þarna stóð hún með flottu, nýju, dýru steinþvegnu gallabuxurnar sínar með engum götum lengur og aðal áherslan, götin, ekki lengur göt heldur búið að tjasla þeim saman í saumavélinni. Ef ég man rétt þá held ég að hún hafi rifið þær upp aftur og bannað ömmu sinni að laga þær. En svona getur kynslóðabilið verið hvað tískubólur varðar!    

Blundar rokkari í þér?

Leður eða leðurlíkisbuxur eru alveg málið núna og verð ég að viðurkenna að það blundar í mér smá rokkari og væri ég alveg til í einar slíkar. Ég hef reyndar átt einar en það var þegar TARK buxurnar voru í tísku. Hver man ekki eftir þeim? Það var reyndar ekkert tískuslys nema þegar búið var að nota þær svo mikið að teygjan var farin að fara úr efninu á rassgatinu, það var ekki fallegt. 

Ég man vel hvað ég svitnaði agalega undan þessum TARK pleðurbuxum. Það var ekki skemmtilegt að klæða sig úr þeim, því maður þurfti hjálp við það, þær voru svo límdar fastar við mig. Kannski maður hefði átt að púðra sig með barnapúðri áður en maður fór á djammið? En vonandi eru efnin í dag orðin betri en þau voru, og ef ekki þá læt ég mig hafa það að svitna, já eða púðra mig vel að neðan!

Uppáhalds buxnamerkið mitt

Ég hef hingað til verið svolítið heilluð af buxnamerkinu 5 units sem fæst í Gallerí Sautján og reyndar í fleiri verslunum innan NTC hf. En þeir eru með nokkur mjög flott snið og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi en ég er mest heilluð af „Jolie“ sniðinu, sem er „boyfriend cut“ með hangandi klofi og þröngar niður. Ég veit vel að þær gera lítið fyrir vöxtinn  því það vill svo til að ég er með ágætis rass, en þær eru bara svo agalega þægilegar því þær eru í svo góðu og teygjanlegu efni, mér finnst það skipta svo miklu máli þegar ég vel mér buxur í dag.  

Diesel er merki sem ég verð alltaf veik fyrir, eftir að hafa unnið hjá NTC hf, en eftir hrunið hafa þeir verið í dýrari kantinum og hef ég því ekki gefið þeim einu sinni séns. En ég gæti hugsað mér að eiga einar Lee gallabuxur sem heita Scarlett,  en það hefur verið mjög vinsælt seinustu ár. Þetta snið er venjulegt í mittinu og  er reyndar gamalt en þeir hafa aðlagað sig að þörfum kúnnans með að bjóða upp á fleiri liti og efni sem hefur fallið vel í kramið hjá neytendum. Það eru reyndar mörg önnur buxnamerki að gera góða hluti hvað þetta varðar en verðskalinn getur verið breytilegur. En það sem er svo skemmtilegt er að það er hægt að kaupa sér flottar buxur á mjög góðu verði. Það sem mér fannst vera áberandi fyrir hrun var að þá snérist allt um hvaða merki maður gekk í en í dag virðist ódýrari verðmiðinn stjórna innkaupum fólks og verslanir hér á landi hafa þurft að aðlaga sig að þessu.

Þær verslanir sem eru hinsvegar bara með eitt vörumerki hjá sér eru einnig með mörg góð snið, eins og Vero Moda, Lindex og margar fleiri búðir. Ef ég ætti að fara að nefna hvert og eitt hér þá væri þessi pistill mjög langur en buxur er sú flík sem ég hef átt í mestum vandræðum með að kaupa mér. Það er nefnilega ekki hægt að panta buxur í gegnum netverslanir nema þekkja sniðin vel. Maður verður að gefa sér tíma til að máta til að vera sátt. Þá þýðir ekkert að taka börnin með í þann verslunarleiðangur. Þegar þú veist að þú ert að fara að kaupa buxur, láttu kallinn „passa“ og fáðu vinkonu þína með og gerið þetta að skemmtilegum degi því það getur verið þreytandi að fara á milli búða og máta. Það hafa eflaust einhverjar fallið í þá gryfju að panta í gegnum netverslanir, sem hefur eflaust endað með að skila þeim því þetta getur verið snúið nema þú þekkir sniðið. Þá held ég að það sé tilvalið að taka fyrir helstu netverslanir landsins í næsta pistli því ef það er eitthvað sem verslunareigendur á Íslandi þurfa að skoða þá er það að færa sig í átt að nútímanum og vera með eina slíka.  

Hér má svo sjá myndir af flottu sniðunum sem er í boði í haust.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir