Kátt á hjalla á kótilettukvöldi
Það var kátt að hjalla á kótilettukvöldi sem haldið var á Hvammstanga um helgina. „Það gekk alveg ljómandi vel, um 280 manns komu sem er nánast húsfyllir,“ sagði Guðmundur Haukur Sigurðsson, formaður Lionsklúbbsins Bjarma, þegar Feykir hafði samband við hann í gær.
„Það var gerður góður rómur að þeim atriðum sem fóru fram. Meðal annarra komu fram þrír kórar. Veislustjórarnir, þeir Guðni Ágústsson og sr. Magnús Magnússon, fóru á kostum, hermdu hvor eftir öðrum og í lokin vissi maður varla hvor var hvað,“ Sagði Guðmundur Haukur ennfremur.
Hann sagði að ekki væri búið að gera endanlega upp hversu mikið safnaðist, en telur þó að þessi eina fjáröflun hafi gefið á þriðju milljón, annars vegar aðgangseyri og hins vegar ágóða uppboðs á listmunum úr héraði. Fjölmargir komu að kótilettukvöldinu gáfu sitt vinnuframlag.
Söfnunin fyrir ómtæki fyrir Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga er því langt komin og segir Guðmundur allar líkur á því að takist að ljúka henni með Pallaballi sem ungir menn á Hvammstanga hafa skipulagt og verður haldið þann 19. mars. Þessa dagana sé verið að leggja lokahönd á val á tækinu og líklega verði hægt að ganga frá kaupunum í kringum páska.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.