„Hlakka til að koma heim og syngja í Miðgarði“
Á laugardaginn kemur, þann 10. október, verða stórtónleikar í Menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði þegar Norðlensku tenórarnir, Kristján Jóhannsson, Óskar Pétursson og Árni Geir Sigurbjörnsson, stíga saman á svið. „Það er svakalegur heiður að fá að syngja með Kristjáni og Óskari. Þeir eru báðir mínir uppáhalds tenórar,“ sagði Árni Geir í samtali við Feyki.
Þegar Árni Geir er spurður hvernig það kom til að tenórarnir ákváðu að leiða saman hesta sína svarar hann að hugmyndin sé upprunalega sprottin frá Kristjáni.
„Þetta var hans tillaga. Ég var hálfgáttaður fyrst en svo hugsaði ég að ég yrði að gera eitthvað í þessu og hringdi í Óskar. Hann sagði við mig að ég væri hálfviti ef ég myndi segja nei,“ segir hann og hlær. Í kjölfarið hringdi Árni Geir í Áskel Heiðar Ásgeirsson, hjá Viðburðarríkt ehf., til að koma boltanum af stað.
„Þessir tónleikar leggjast vel í mig. Ég hef ekki sungið með Kristjáni áður, nema í söngtíma, en ég hef sungið með Óskari í afmælum og jarðarförum en ekki á tónleikum. Dagskráin á tónleikunum verður fjölbreytt. Við munum syngja íslensk og ítölsk sönglög, ítalskar aríur auk þess sem við munum syngja dúetta. Við munum hafa gaman af þessu og gleðin verður við völd. Ég hlakka til að koma heim og syngja í Miðgarði,“ segir Árni Geir.
Viðtal við Árna Geir má lesa í Feyki vikunnar.
Forsala aðgöngumiða er á miði.is, miðaverð er kr. 3.900.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.