Heilmikil dagskrá á Húnavöku
Mikið verður um að vera á Blönduósi nú um helgina en bæjar- og fjölskylduhátíðin Húnavaka hófst í gær og stendur fram á sunnudag. Dagskrá hátíðarinnar er afar fjölbreytt og ættu allar kynslóðir að geta fundið sér eitthvað til skemmtunar.
Í dag er opið hús hjá nokkrum fyrirtækjum á staðnum. Söfnin bjóða gesti velkomna og af ýmsu er að taka s.s. sýningu um íslensku lopapeysuna í Heimilisiðnaðarsafninu, gaman er að skoða Minjastofuna í Kvennaskólanum og fá að taka spor í Vatnsdælurefilinn. Einnig er hægt að fara á sýningu um hafís og komast í návígi við ísbjörn í Hillebrandtshúsinu. Leikhópurinn Lotta verður á Káratúni og alltaf er fjör á skólalóðinni. Í kvöld verður svo kótelettukvöld í Evindarstofu og enginn ætti að verða svikinn af þeim kræsingum sem þar verða fram bornar og í Fagrahvammi verður boðið upp á tónlistarveislu þar sem Friðrik Dór Jónsson, Hildur Kristín Stefánsdóttir og Magni Ásgeirsson koma fram. Loks verður ball í Félagsheimilinu með Á móti sól.
Á morgun er fjölbreytt dagskrá. Boðið verður upp á útsýnisflug hjá Flugklúbbi Blönduóss, á Vatnahverfisvelli verður golfmót og hægt verður að fá fjallahjólakennslu og fara í fjallahólaferð fyrir alla fjölskylduna. Blönduhlaup USAH verður hlaupið og Skotfélagið Markviss verður með opinn dag á skotsvæði félagsins. Þá verður söguganga um gamla bæinn, náttúruyogastund í Hrútey og fjölmargt fleira til skemmtunar. Um kvöldið verður kvöldskemmtun í Fagrahvammi með varðeldi og tónlistarveislu ásamt því sem umhverfisverðlaun Blönduósbæjar verða veitt. Á kvöldvökunni koma fram Gunni Helga, Gunni Óla og Einar Ágúst úr Skítamóral, Daði Freyr og hinn eini sanni Helgi Björns. Hljómsveitin Skítamórall spilar svo á balli í Félagsheimilinu seinna um kvöldið.
Á sunnudaginn verður svo boðið upp á gönguferð fyrir alla fjölskylduna og einnig fer hin árlega Prjónaganga úr gamla bænum og að Kvennaskólanum. Sápurennibraut verður sett upp í kirkjubrekkunni og bókamarkaður verður á Héraðsbókasafninu og þar verður einnig Gunni Helga og les upp úr bók sinni, Barist í Barcelona.
Hægt er að kynna sér dagskrána hér og einnig á Facebook síðu Húnavöku.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.