„Ég vil fara upp í sveit“
Rökkurkórinn hefur frá áramótum æft skemmtilega söngdagskrá í tali og tónum sem ber yfirskriftina „Ég vil fara upp í sveit.“ Þema dagskrárinnar eru þekkt dægurlög frá seinni hluta síðustu aldar, tengda saman með texta sem helgaður er hinni einu sönnu, íslensku sveitarómantík.
Fyrstu tónleikarnir verða á Blönduósi miðvikudaginn 13. apríl og hefjast kl. 20:30 og sunnudaginn 17. apríl verða tónleikar í Miðgarði kl. 15. Á báðum tónleikunum verða sérstakir gestir stjörnuparið Sigvaldi Helgi og Sóla.
Þriðju tónleikarnir verða svo á Hofsósi miðvikudaginn 20. apríl og hefjast kl. 20:30. Stjórnandi og undirleikari er Thomas R. Higgerson og hefur hann útsett mörg laganna sérstaklega fyrir þessa dagskrá. Lögin verða svo tengd saman með talmáli sem samið er af Björgu Baldursdóttur.
Rökkurkórinn er blandaður kór sem stofnaður var af söngglöðu fólki í Skagafirði árið 1978. Kórinn hefur haldið tónleika víðsvegar um landið, ásamt því að taka þátt í fjölmörgum skemmtunum, bæði einn og sér og með öðrum kórum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.