Bjarni Har fór síðasta rúntinn í dag
Heiðursborgari Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Bjarni Haraldsson, kaupmaður í útbænum á Króknum, var borinn til grafar frá Sauðárkrókskirkju í dag. Að útför lokinni fór líkfylgdin með Bjarna síðasta rúntinn eftir Aðalgötunni og staldraði utan við Verslun Haraldar Júlíussonar þar sem öðlingurinn stóð vaktina nánast alla tíð.
Bjarni fæddist 14. mars 1930 og lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki 17. janúar sl. Eftirlifandi eiginkona Bjarna er Ásdís Kristjánsdóttir en sonur þeirra er Lárus Ingi matreiðslumeistari og starfsmaður Kjöríss í Hveragerði. Fyrri kona Bjarna var María Guðvarðsdóttir en þau áttu saman tvær dætur; Guðrúnu Ingibjörgu og Helgu. Bjarni hóf ungur bílaútgerð með vörubílum og rútum en með foreldrum sínum, og síðar einn frá árinu 1970, rak hann jafnframt Verslun Haraldar Júlíussonar, eina elstu kaupmannsverslun landsins sem starfað hefur óslitið síðan árið 1919.
Í texta í útfararskrá segir: „Bjarni var mikill félagsmálamaður, ötull Lionsmaður og þekktur og einarður Sjálfstæðismaður, sat á framboðslistum og sótti landsfundi flokksins áratugum saman. Bjarni var mikill velunnari Sauðárkrókskirkju, trúnaðarmaður SÁÁ og heiðursfélagi Landvaka, Félags vöruflytjenda. Þá var hann heiðraður af Olís árið 2012 fyrir áratuga starf. Á fjölsóttu aldarafmæli verslunarinnar sumarið 2019 var Bjarni útnefndur heiðursborgari Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sá fyrsti í sameinuðu sveitarfélagi.“
Hér að neðan má sjá myndir frá útförinni og síðasta rúnti B Har um Aðalgötuna á Króknum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.