„Bærinn verður alveg prjónaður í drasl“

„Við erum með toppkennara sem verða að kenna ýmislegt í sambandi við tækni, hönnun og allt mögulegt í sambandi við prjón,“ segir Jóhanna. Mynd/Samsett af vef Textílseturs Íslands.
„Við erum með toppkennara sem verða að kenna ýmislegt í sambandi við tækni, hönnun og allt mögulegt í sambandi við prjón,“ segir Jóhanna. Mynd/Samsett af vef Textílseturs Íslands.

Alþjóðlegi prjónadagurinn er 11. júní nk. og hann verður aldeilis haldinn hátíðlegur á Blönduósi þegar prjónahátíðin Prjónagleði fer fram í fyrsta sinn, helgina 10. - 12. júní. Þar mun áhugafólk um prjónaskap sameinast, deila og miðla reynslu, læra eitthvað nýtt og hafa gaman. Feykir ræddi við skipuleggjanda hátíðarinnar, Jóhönnu Erlu Pálmadóttur, framkvæmdastjóra Textílseturs Íslands, og fékk að heyra nánar um fögnuðinn sem framundan er. 

Búið er að setja saman metnaðarfulla og skemmtilega dagskrá fyrir Prjónagleði, sem hefur hlotið heitið „Knitting Deilight“ á ensku. Skipulögð hafa verið 13 mismunandi námskeið, sem haldin verða fyrir og eftir hádegið að laugardeginum og fyrir hádegið á sunnudeginum. Einnig er boðið upp á fyrirlestra. 

„Við erum með toppkennara sem verða að kenna ýmislegt í sambandi við tækni, hönnun og allt mögulegt í sambandi við prjón,“ segir Jóhanna. Námskeið og fyrirlestrar fara fram í Grunnskólanum á Blönduósi en alla helgina mun Íþróttahúsið iða af lífi þar sem kaffihúsastemningin mun ráða ríkjum og sölu- og sýningarbásar verða allt í kring. Þess má geta að frestur til að sækja um að vera með sölubás rennur út þann 20. apríl. 

„Á föstudagskvöldið verður setningarhátíð í Félagsheimilinu á Blönduósi og þar ætlar Gísli Einarsson, okkar maður, að ræða um lopapeysuna og Hélène Magnússon verður með tískusýningu. Þar verður jafnframt hátíðarkvöldverður að laugardagskvöldinu,“ segir Jóhanna um skipulagt skemmtanahald. Dagskrána í heild sinni má skoða á vef Textílseturs Íslands og er fólk hvatt til þess að skrá sig til þátttöku á síðunni. Þá eru hópar, s.s. prjóna- og saumaklúbbar, boðnir sérstaklega velkomnir að koma og prjóna-sam-gleðjast.

Mikil eftirvænting er fyrir hátíðinni í bænum og þegar Jóhanna er spurð hvort prjónaklúbbar og svokallaðir prjónagraffarar, sem skreyttu bæinn svo eftirminnilega síðastliðið sumar, ætli að leggja verkefninu lið segir hún að það ætli þeir svo sannarlega að gera. „Þær eru byrjaðar alveg á fullu að prjóna og hekla á alla staura og grindverk út um allar jarðir.  Þetta verður ennþá stærra, meira og flottara en síðasta sumar - þannig að bærinn verður alveg prjónaður í drasl,“ segir hún og hlær. 

Nánar er fjallað um Prjónagleði í Feykir vikunnar. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir