Vindurinn fór fram úr björtustu vonum

Það var ekki logninu fyrir að fara þegar Siglingaklúbburinn Drangey hélt lokamót í kænusiglingum við suðurgarð Sauðárkrókshafnar í dag. Reyndar er logn langt frá því að vera æskilegt þegar keppt er í siglingum en þegar komið var fram yfir hádegi í dag var vindurinn orðinn meiri en góðu hófi gegndi - fram úr björtustu vonum mótshaldara (kannski pínu of mikill) - og keppnin því blásin af.

Aðstæður voru ágætar framan af en þegar ljósmyndari Feykis kíkti í höfuðstöðvar Siglingaklúbbsins Drangeyjar var boðið upp á pönnsur og fínerí en keppnin hafði verið stöðvuð sem fyrr segir, enda ölduhæð komin yfir 2 metra að sögn fróðra.

Keppendur komu frá Sauðárkróki, Akureyri og af höfuðborgarsvæðinu og létu þeir vindinn svo sem ekki stöðva sig, þeir sem höfðu vilja til gátu æft sig í höfninni og jafnvel utan hennar. Ljósmyndari fylgdist furðu lostinn með nokkrum kænum þjóta inn í höfnina á leifturhraða í vindinum en gúmmíbátar frá björgunarsveitinni fylgdu þeim siglingaköppum eftir sem lögðu í vindinn utan hafnarminnis.

Hér má sjá nokkrar myndir sem teknar voru um kl. 14 í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir