Margir skoðuðu glæsilega aðstöðu Versins

Margir lögðu leið sína í Verið Vísindagarða á Sauðárkróki í gær en þá var opið hús í tilefni þess að Verið stækkaði nýverið húsakynni sín. Við tækifærið gafst gestum og gangandi kostur á að kynna sér þá víðtæku starfsemi sem fram fer í húsinu og kynntar voru niðurstöður styrkveitinga AVS sjóðsins þetta árið.

Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Jón Bjarnason fv. ráðherra voru viðstaddir og fluttu ávörp og hafði Steingrímur orð á því að heimsóknin norður á Sauðárkrók væri kærkomið frí frá þrasinu á Austurvelli en báðir fóru þingmennirnir lofsamlegum orðum um starfsemi Versins.

Gísli Svan Einarsson framkvæmdastjóri Versins setti samkomuna og Jón Eðvald Friðriksson framkvæmdastjóri FISK Seafood, Skúli Skúlason rektor Hólaskóla – Háskólans á Hólum, Sveinn Margeirsson forstjóri Matís og Friðrik Friðriksson formaður stjórnar Matís fluttu einnig ávörp. Allir voru sammála um að í Verinu væri um glæsilega aðstöðu á heimsmælikvarða að ræða og fræddu þeir viðstadda um það góða og mikilvæga starf sem þar fer fram og hvernig Verið varð að veruleika.

Lárus Ægir Guðmundsson formaður AVS skýrði úthlutun sjóðsins en sjóðurinn, sem stendur fyrir „Aukið virði sjávarfangs“, er staðsettur í Verinu.

Þá sagði hann að alls hafi verið sótt um styrki til 190 verkefna að þessu sinni, samtals að upphæð 905 milljónunum króna og hlutu 71 aðilar styrk að upphæð  334 milljónir króna. Umsóknum fjölgaði frá fyrra ári um 28 og óskum um styrkupphæð um 96 milljónir króna, en í ár var 20 milljónum kr. minna til úthlutunar en í fyrra og þurfti því að hafna mörgum vænlegum verkefnum. Styrkir eru flokkaðar í fimm flokka eftir eðli þeirra og skiptust eins og hér má sjá (nánari upplýsingar og listi yfir styrkþega er að finna á heimasíðu AVS) :

  • Fiskeldi                                   84.200        þús. kr.
  • Markaðsmál                           47.050        þús. kr.
  • Líftækni                                  48.400        þús. kr.
  • Veiðar og vinnsla                  119.600       þús. kr.
  • Efling sjávarbyggða               34.900        þús. kr.
  •             Samtals                    334.150        þús. kr.

Hér má sjá myndir frá samkonunni en boðið var upp á kaffiveitingar að dagskrá lokinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir