Lífsins gæði og gleði gera stormandi lukku á Króknum
Fjöldi gesta heimsótti íþróttahúsið á Sauðárkróki í dag þar sem atvinnulífssýningin Skagafjörður - Lífsins gæði og gleði opnaði í morgun. Það er óhætt að fullyrða að stemningin hafi verið frábær enda margt spennandi og skemmtilegt að sjá. Seinni dagur sýningarinnar er á morgun og verður húsið opnað kl. 10 í fyrramálið en kl. 14 verður Sæluvikan sett í íþróttahúsinu.
Það er Ásta Pálmadóttir sveitarstjóri sem mun setja Sæluvikuna og Karlakórinn Heimir syngur nokkur lög við það tækifæri. Það er því ekkert sem mælir móti því að kíkja aftur í íþróttahúsið á morgun!
Hér að neðan má skoða nokkrar myndir frá sýningunni. Skemmtiatriði voru á sviði þar sem ungt tónlistarfólk tróð upp og þá vöktu tískusýningar í boði Gestastofu sútarans mikla athygli. Rétt er að minnast á að fólk er hvatt til að sækja málstofur í Árskóla í tengslum við sýninguna en málstofurnar voru vel sóttar í dag enda boðið upp á mörg spennandi erindi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.