Fjölskylduvæn Jónsmessuhátíð að baki

Um helgina var haldið á Hofsósi Jónsmessuhatíð sem heppnaðist í alla staði mjög vel. Fjöldi gesta var samankomin á tjaldstæðinu og 150 lítrar af kjötsúpu rann niður eftir kvöldgönguna.

 

Hátíðin hófst með göngu þar sem fólki var keyrt frá Höfðaborg að Stafnshóli í Deildardal og þaðan gengið gamlar slóðir niður í Hofsós undir öruggri leiðsögn Kristjáns Snorrasonar. Má ætla að fjöldi göngumanna hafi verið hátt í 200 manns og flestir komu við í Höfðaborg þar sem ljúffeng kjötsúpa var á borðum. Að sögn þeirra er sáu um súpuna var búin til 150 lítrar af henni og má segja að hún hafi klárast. Að lokinni súpu tók við skemmtun og ball í Höfðaborg.

 

Á laugardeginum var  boðið upp á fjölbryetta dagskrá við allra hæfi. Hestamenn kepptu í smalakeppni, knattspyrnuáhugamenn kepptu í fótbolta, konur á öllum aldri tóku þátt í kvennahlaupi, skemmtidagskrá, markaður og grill á útisvæði og leiktæki fyrir börnin. Um kvöldið sá Geirmundur Valtýsson til þess að allir skemmtu sér vel á stórdansleik og má segja að hann hafi sett punktinn yfir i-ið á Jónsmessuskemmtuninni.

 

Veðurguðirnir sýndu gestum nokkur sýnishorn af þeirra framleiðslu s.s. rigningu, næturfrost, sól og blíðu en allt í réttum skömmtum á réttum tíma.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir