Tóti túrbó með þrefalda tvennu í leiknum gegn Breiðablik

Þórir með þrefalda tvennu... vel gert. Mynd Davíð Már
Þórir með þrefalda tvennu... vel gert. Mynd Davíð Már
Í gær, fimmtudaginn 2. nóvember, var spiluð 5. umferð í Subway-deild karla og mætti Tindastóll í Smárann að spila við Breiðablik. Fyrir leikinn sátu Stólarnir í 3. sæti í deildinni með þrjá sigar og eitt tap en Blikar í því neðsta með fjögur töp. Tindastólsmenn spiluðu enn og aftur án Péturs Rúnars, Sigtryggs Arnars og Davis Geks en fyrir vikið fengu Orri, Veigar og Hannes stærra hlutverk og skiluðu þeir því vel. 
 

Tindastóll var með yfirhöndina frá byrjun til enda en Blikar gerðu nokkrar athlögur í leiknum sem dugðu skammt. Stólarnir voru tíu stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 16-26. Í leikhlé var staðan 39-47 og því aðeins 8 stiga munur. Stólarnir komu svo mjög ákveðnir til leiks í þriðja leikhluta og náðu 19 stiga forskoti þegar honum lauk. Í fjórða leikhluta héldu Stólarnir sama hætti og lokuðu leiknum með 15 stiga forystu, lokatölur 77-92. Glæsilegur sigur hjá Stólunum sem hefði verið gaman að geta horft á öðruvísi en í micromynd í Skiptiborðinu eða í gegnum stattið á visir.is. Væri ekki tilvalið að það yrði gerð krafa á þau lið sem spila í Subway-deildinni að sýna frá sínum leikjum eins og er gert í Bestu deildinni í fótboltanum. 

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var svakalegur í þessum leik og gerði sér lítið fyrir og var með þrefalda tvennu. Hann skoraði 26 stig, tók 11 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Adomas Drungilas var með tvöfalda tvennu, skoraði 20 stig og tók 10 fráköst. Ragnar Ágústson var einnig með tvöfalda tvennu, skorðai 15 stig og var með 10 fráköst. Callum Lawson skoraði 20 stig og var með 5 fráköst. Næsti leikur hjá strákunum er fimmtudaginn 9. nóvember þegar þeir taka á móti Stjörnunni í Síkinu. 
 
Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir