Þórsliðið vann öruggan sigur í nágrannaslagnum
Önnur umferð í 1. deild kvenna í körfubolta hófst í gær og skruppu þá Stólastúlkur yfir Öxnadalsheiðina og léku við lið Þórs í Höllinni á Akureyri. Bæði lið unnu góða sigra í fyrstu umferð; Tindastóll vann slakt lið Blika b á meðan Þórsarar lögðu lið Ármanns sem var hársbreidd frá því að komast í efstu deild sl. vor. Heimastúlkur náðu undirtökunum í öðrum leikhluta og eftir það náðu gestirnir aldrei að ógna Þórsliðinu. Lokatölur 74-52.
Ágæt mæting var í Höllina en 150 áhorfendur voru á leiknum. Tindastóll mætti til leiks með aðeins átta leikmenn, vegna veikinda og meiðsla, og það eina jákvæða við það var að allar fengu stúlkurnar góðan spilatíma. Lið Þórs fór betur af stað og í raun gerði Tindastólsliðið aðeins eina körfu á fyrstu fimm mínútum leiksins og staðan þá 11-3. Tíu stig sem Chloe og Eva Rún skiptu á milli sín breyttu stöðunni í 11-13 en það reyndist eina skiptið sem Stólastúlkur voru yfir í leiknum. Þórsarar svöruðu með ellefu stigum í röð, voru yfir 16-13 eftir fyrsta leikhluta, og hvorki gekk né rak hjá gestunum langt fram í annan leikhluta. Á fimm mínútna kafla gerði lið Þórs 21 stig en Tindastóll tvö, staðan orðin 32-15 og möguleikar gestanna litlir gegn ákveðnu liði Þórs. Staðan í hálfleik var 41-26.
Heimastúlkur héldu áfram að bæta í í þriðja leikhluta og voru með 24 stiga forystu að honum loknum, 59-35, en lið Tindastóls náði aðeins að klóra í bakkann í fjórða leikhluta sem þær unnu, 15-17. Það dugði auðvitað skammt og sigur Þórsara öruggur.
Chloe Wanink, Emese Vida og Eva Rún drógu vagninn í stigaskori Stólanna. Chloe gerði 15 stig, Emese 13 og Eva 12. Emese hirti 16 fráköst og var með langflesta framlagspunkta Stólastúlkna eða 28. Í liði Þórs reyndist Maddie Sutton sínum gömlu félögum ansi erfið en hún gerði 14 stig og náði 25 fráköstum. Stigahæst í liði Þórs var Emma Snæbjarnardóttir með 16 stig en hún er aðeins 14 ára gömul, hún tók að auki sjö fráköst. Hrefna Ottósdóttir skilaði 14 stigum og Heiða Hlín Björnsdóttir var með 12.
Næsti leikur Tindastóls er gegn liði Ármanns nú á laugardaginn og hefst hann kl. 19 í Kennaraháskólanum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.