Stólastúlkur lögðu Vestra í Síkinu
Konur voru í aðalhlutverki á Króknum í dag því spilað var í Síkinu og á gervigrasvellinum á sama tíma – veðrið var þó heldur skaplegra í Síkinu! Þar tók lið Tindastóls á móti liði Vestra frá Ísafirði sem vermt hefur botnsætið í 1. deild kvenna í allan vetur en þær eru þó sýnd veiði en ekki gefin og hafa verið að tapa leikjum naumlega upp á síðkastið. Lið Tindastóls náði góðri stöðu snemma leiks og náði að halda gestunum frá sér án mikilla vandkvæða og fagnaði að lokum góðum 16 stiga sigri; lokatölur 78-62.
Leikurinn var hnífjafn framan af leik en gestirnir voru yfir, 9-11, þegar rúmar sjö mínútur voru liðnar. Þá kom frábær kafli hjá Stólastúlkum sem gerðu ellefu stig í röð úr öllum áttum og voru síðan yfir, 23-13, að loknum fyrsta leikhluta. Anna Karen kom muninum í 28-15 með þristi og hún bætti öðrum við í kjölfarið og staðan 31-16. Þá kom flottur kafli frá gestunum sem gerðu tíu stig í röð og minnkuðu muninn í fimm stig þegar fjórar mínútur voru til leikhlés. Stólastúlkur hristu af sér slenið og körfur frá Fanney Maríu, Rebekku og Maddie löguðu stöðuna strax og í hálfleik var munurinn ellefu stig, staðan 39-28.
Liði Vestra hafði gengið ágætlega að stöðva stigaskorið hjá Maddie í fyrri hálfleik en hún var drjúg sem fyrr í fráköstunum. Þeim gekk verr að halda í við hana í síðari hálfleik en bæði lið gerðu þá mikið af mistökum og margir boltar töpuðust klaufalega. Munurinn var yfirleitt um tíu stig fyrstu mínútur þriðja leikhluta en þristar frá Evu Rún og Önnu Karen gáfu liði Tindastóls gott andrými og staðan fyrir lokafjórðunginn 59-45. Liðunum gekk illa að skora í upphafi fjórða leikhluta en þristur frá Ingigerði kom liði Tindastóls yfir sextíu stigin og síðan tók Maddie leikinn í sínar hendur, gerði næstu átta stig Tindastóls og staðan orðin 70-49 og úrslitin í raun ráðin. Gestirnir gáfust ekki upp en þær áttu aldrei séns á að snúa leiknum sér í vil í dag.
Maddie var ekki með neinar draumatölu að loknum fyrri hálfleik en þessi snillingur endaði leikinn með 29 stig, 23 fráköst og tíu stoðsendingar! Anna Karen skilaði 12 stigum sem öll komu úr 3ja stiga skotum, Eva Rún gerði níu stig, tók sex fráköst og átti sjö stoðsendingar og Fanney María var með sjö stig og sex fráköst. Þá var Ingigerður með átta stig og Klara Sólveig sjö.
Lið Tindastóls er sem stendur í áttunda sæti 1. deildar kvenna með 14 stig, sjö sigurleiki en níu töp. Deildin er gríðarlega jöfn ef frá eru skilin tvö neðstu sætin og tvö efstu en pakkinn frá þriðja sæti og niður í það níunda eru mjög jafn og þar getur allt gerst. Næsti leikur Tindastóls er gegn toppliði Ármanns á útivelli þann 1. mars.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.