Stólastúlkur áfram í 2. umferð Mjólkurbikarsins

Sólveig Birta og Gabriella Coleman í baráttunni í dag. MYND: ÓAB
Sólveig Birta og Gabriella Coleman í baráttunni í dag. MYND: ÓAB

Lengjudeildarlið Tindastóls og HK mættust á gervigrasinu á Króknum í dag í fyrstu umferð Mjólkurbikars kvenna. Lið Tindastóls fékk fljúgandi start og leiddi 3-0 í hálfleik þó það geti nú varla talist hafa verið samkvæmt gangi leiksins. Lið HK kvittaði fyrir sig með tveimur mörkum snemma í síðari hálfleik og spenna hljóp í leikinn. Stólastúlkur náðu að stoppa í götin að mestu í vörninni og þrátt fyrir talsverða pressu HK tókst þeim ekki að jafna leikinn og það var því lið Tindastóls sem vann leikinn 3-2 og tryggði sér sæti í 2. umferð. Þar mæta stelpurnar 2. deildar liði ÍR og verður leikið á Króknum 15. maí.

Ágætar aðstæður voru á Króknum í dag, sunnangola og hitinn um og yfir tíu gráðunum. Lið Tindastóls náði forystunni á 8. mínútu þegar Murr skallaði aukaspyrnu af vinstri kanti í markið. Þá kom sterkur kafli hjá liði HK þar sem Amber greip ítrekað inn í og bjargaði málum; oftar en ekki með úthlaupum þar sem hún var naumlega á undan sóknarmönnum HK í boltann sem fengið höfðu stungur inn fyrir vörn Stólastúlkna. Annað mark Tindastóls kom á 41. mínútu eftir að Hugrún Páls náði að setja mikla pressu á Audrey Baldwin í marki HK, vörn HK sendi lausan bolta til baka og Hugrún var hársbreidd frá því að komast í boltann en Audrey náði að hreinsa en beint á Hönnuh Cade sem lyfti boltanum yfir vörn og markvörð gestanna og í markið. Á fyrstu mínútu í uppbótartíma fékk Hugrún síðan það sem hún átti skilið eftir frammistöðu sína. Murr sendi boltann inn fyrir framliggjandi vörn HK og Hugrún skaust inn fyrir og þrátt fyrir að hún væri augljóslega meidd þá náðu varnarmenn HK ekki í skottið á henni og hún náði að renna boltanum í markið þegar færið virtist orðið nokkuð þröngt. Vel gert. Staðan 3-0 í hálfleik og lið gestanna virtist vængbrotið.

Hugrún og Lara Margrét fóru af velli í hálfleik og Murr virtist glíma við einhver meiðsli í fremstu víglínu. Það leit því út fyrir á fyrstu mínútum síðari hálfleiks að Stólastúlkur ætluðu að reyna að þétta raðirnar og halda fengnum hlut. Það virtist ætla að koma í bakið á liðinu því Arna Sól Sævarsdóttir minnkaði muninn með laglegu marki á 55. marki eftir gott spil og aðeins þremur mínútum síðar datt féll boltinn vel fyrir Isabellu Evu Aradóttur inni á teignum eftir pressu gestanna. Heimastúlkur náðu sem fyrr segir að laga leik sinn varnarlega en liðið skapaði sér engin færi í síðari hálfleik. Amber þurfti að grípa inn í nokkrum sinnum á lokakaflanum en gestirnir fengu engin dauðafæri og því héldu Stólastúlkur út.

Feykir hafði samband við Donna þjálfara eftir leik en hann var ánægður með sterka byrjun á leiknum. „Frábært að setja gott mark svona snemma leiks. Fyrri hálfleikurinn var heilt yfir frekar jafn þó svo að við hefðum nýtt okkar færi vel en ekki HK.“

Lið HK skorar tvö mörk í byrjun síðari hálfleiks, hvað er það sem gerist?„HK er með hörkugott og vel spilandi lið, stjórnað af toppmanninum Guðna okkar Einars, og þær voru bara hreinlega frábærar i seinni hálfleik. Við hefðum átt að gera betur varnarlega i mörkunum sem við fengum á okkur og þurfum að vinna betur i varnarfærslum og að vinna stöðuna 1 á móti 1. Okkar leikur riðlast mikið þegar Hugrún fer út af i hálfleik þvî við breyttum um varnarafbrigði og það gekk illa upp. Við breyttum svo aftur siðustu 12 mínúturnar og það gekk betur. Við erum ennþá að þróa okkar leik og að ná að stilla saman strengi því við höfum ekki getað æft saman sem hópur ennþá. En að vinna leikinn er virkilega sterkt og sætt og það sem við vitum er að við verðum bara betri.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir