Stólarnir komnir í góða stöðu á toppi 4. deildar

Dominic (10) og Sverrir skoruðu báðir í dag. Myndin er frá því fyrr í sumar. MYND: SIGURÐUR INGI
Dominic (10) og Sverrir skoruðu báðir í dag. Myndin er frá því fyrr í sumar. MYND: SIGURÐUR INGI

Það var stórleikur í 4. deildinni á Króknum í dag þegar lið Tindastóls tók á móti Kópavogspiltum í Ými í raka og þelköldu þokulofti. Liðin hafa skipst á um að tróna á toppi deildarinnar síðustu vikurnar og ljóst að sigur í dag yrði stórt skref fyrir heimamenn í átt að því að tryggja sér keppnisrétt í 3. deild að ári. Það fór svo að stigin þrjú bættust í Stólapottinn eftir 3-1 sigur og áfram heldur frábært gengi Tindastóls í deildinni.

Það voru reyndar gestirnir sem áttu fyrsta höggið þegar Hákon Freyr Jónsson skoraði eftir 18. mínútna leik. Heimamenn voru snöggir að svara fyrir sig en það gerði þjálfari liðsins, Dominic Furness, á 24. mínútu. Jafnt var í hálfleik og þrátt fyrir yfirburði urðu Stólarnir að bíða fram á 79. mínútu eftir markinu mikilvæga. Þá skilaði fyrirliðinn, Sverrir Hrafn, sendingu frá Benna Vilbergs í markið. Það var síðan David Bjelobrk sem skellti kokteilberinu á sigurtertuna með marki á fimmtu mínútu í uppbótartíma.

Stólarnir nú með 34 stig í efsta sæti deildarinnar, Ýmir er með 29 stig og Árborg 28 í þriðja sæti en þau eiga leik inni á Stólana og það reyndar innbyrðisviðureign þannig að annað eða bæði liðin munu tapa stigum þar. Stólarnir eiga eftir að spila þrjá leiki í deildinni en næsti leikur er útileikur, eitthvað sem hefur ekki gerst síðan 4. júlí, en andstæðingurinn er botnlið RB.

Spenntir fyrir næsta leik

Feykir hafði samband við Sverri Hrafn Friðriksson, fyrirliða Stólanna, og spurði hvort úrslitin hefðu verið sanngjörn. „Já, mér fannst þetta sanngjörn úrslit. Við stjórnuðum leiknum frá byrjun til enda og vorum töluvert betri aðilinn. Þeir áttu einhverjar skyndisóknir en mér fannst við eiga vel við það.“

Sæti í 3. deild er í seilingarfjarlægð, hvernig leggjast síðustu leikirnir í deildinni í þig? „Lokaleikirnir leggjast bara mjög vel í mig, við erum á mjög góðri siglingu og er markmiðið að halda því bara áfram. Næsti leikur er RB næsta laugardag og verður það verðugt verkefni.“

Markið þitt í dag, var þetta eitt mikilvægasta markið á ferlinum? „Já, ég er ekki frá því að þetta sé minilvægasta markið mitt á ferlinum, kom á mjög góðum tíma fyrir liðið og ánægjulegt að geta hjálpað til í sóknarleiknum af og til. Draumabolti frá Benna Vilbergs sem ég þurfti bara að stýra á markið. En í heildina litið erum við bara mjög sáttir við þessi þrjú stig í dag og spenntir fyrir næsta leik,“ sagði Sverrir Hrafn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir