Siggi Þorsteins kveður Stólana með enn eina meistaramedalíuna í farteskinu
Í tilkynningu á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Tindastóls í síðustu viku var sagt frá því að Sigurður Gunnar Þorsteinsson og kkd. Tindastóls hafi lokið samstarfi sínu. „Tindastóll á Sigurði margt að þakka, reynsla hans og hæfni voru afar mikilvæg í baráttunni um langþráða titilinn síðastliðin tvö ár. Við erum honum ævinlega þakklát og óskum honum alls hins besta í framtíðinni,“ segir í tilkynningunni.
Siggi sendi sjálfur kveðju til Skagfirðinga á Facebook þar sem hann þakkar fyrir árin tvö á Króknum og segir stuðningsmenn og Stólunum hafa tekist að gera þau einstök. Fram kom hjá kappanum að þetta hafi verið hans ákvörðun en hann hefur verið bæði sjálfum sér og sínum til sóma þennan tíma í Skagafirðinum.
Siggi, sem hefur farið víða á löngum ferli, var ekki að vinna meistaratitilinn í fyrsta sinn þegar hann krækti í titilinn með liði Tindastóls nú í maí. Ísfirðingurinn hefur nefnilega náð þeim merka árangri að verða meistari með þremur félögum. Hann er að sjálfsögðu uppalinn hjá KFÍ en fór ungur til Keflavíkur þar sem hann varð fyrst meistari árið 2008. Hann spilaði enn stærri rullu með liði Grindvíkinga og varð meistari með þeim tvö ár í röð, 2013 og 2014. Og nú, 15 árum frá fyrsta titlinum, hjálpaði hann Stólunum að næla í sinn fyrsta titil. Það er því næsta víst að hann á ágætan part í hjörtum Tindastólsfólks.
Rétt er að geta þess að Sigurður mun sinna áður auglýstri þjálfun fyrir Tindastól í sumar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.