Naglbítur í Síkinu þegar Stólastúlkur sigruðu lið Aþenu

Ingigerður sækir að körfu Aþenu/UMFK. Hún hefur styrkt lið Tindastóls frá því að hún gekk til liðs við Stólastúlkur í byrjun árs. MYND: HJALTI ÁRNA
Ingigerður sækir að körfu Aþenu/UMFK. Hún hefur styrkt lið Tindastóls frá því að hún gekk til liðs við Stólastúlkur í byrjun árs. MYND: HJALTI ÁRNA

Stólastúlkur spiluðu átjánda leik sinn í 1. deild kvenna nú undir kvöld þegar lærisveinkur Brynjars Karls í Aþenu/UMFK mætti í Síkið. Gestirnir fóru betur af stað og leiddu með níu stigum í hálfleik en lið Tindastóls gafst ekki upp og náði vopnum sínum í síðari hálfleik. Lokamínúturnar voru æsispennandi en heimastúlkur héldu út og unnu leikinn 68-66.

Lið Aþenu byrjaði leikinn skínandi vel og voru komnar með átta stiga forystu, 6-14, eftir ríflega fimm mínútna leik. Stólastúlkur kroppuðu í forystu gestanna sem leiddu þó, 14-18, að fyrsta leikhluta loknum. Maddie minnkaði muninn í eitt stig, 19-20, þegar tvær mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta en þá kom góður kafli Aþenu og þær héldu fimm til níu stiga forystu síðustu mínúturnar fram að hléi. Staðan í hálfleik 26-35.

Einhverja eldræðu hefur Jan þjálfari þrumað yfir sínum stúlkum í hléi því heimastúlkur komu ákveðnar til leiks og hófu fljótlega að saxa á forskot gestanna. Eva Rún minnkaði muninn í fjögur stig, 37-41, þegar sex mínútur voru liðnar og Maddie bætti um betur. Ingigerður og Maddie gerðu síðan tvær síðustu körfur leikhlutans og staðan 45-47 fyrir lokafjórðunginn.

Ingigerður hóf fjórða leikhlutann á því að setja niður þrist og kom liði Tindastóls yfir í fyrsta skipti síðan á 1. mínútu. Jafnræði var með liðunum næstu tvær mínútur en þristur frá Önnu Karen og þrír tvistar frá Evu breyttu stöðunni úr 48-49 í 57-51 og staða Tindastóls góð þegar fimm mínútur voru eftir. Lokamínúturnar voru æsispennandi og gestirnir hótuðu endurkomu, Violet Morriw skellti í þrist þegar hálf mínúta var eftir og staðan 66-64. Lokastigin komu öll af vítalínunni þar sem taugar leikmanna beggja liða voru þandar og nýtingin 50%. Þegar tæp sekúnda var eftir munaði þremur stigum og Tanja Ósk Brynjarsdóttir fékk tvö víti, hún varð því að setja fyrra vítið niður og klúðra því síðara í þeirri von að félagar hennar næðu að ýta boltanum í körfuna og jafna þannig leikinn. Það gekk ekki eftir þó litlu hefði mátt muna.

Þrátt fyrir nokkra sæta sigra að undanförnu er lið Tindastóls enn í áttunda sæti. Stjarnan á möguleika að ýta þeim úr því sæti en lið Stjörnunnar á einn leik eftir en Tindastóll tvo. Maddie Sutton var atkvæðamest að venju, gerði 30 stig og tók 22 fráköst. Eva Rún gerði 16 stig og átti sex stoðsendingar og Ingigerður gerði tíu stig. Violet Morrow var stigahæst í liði Aþenu með 26 stig og Tanja Ósk gerði tíu stig.

Lið Tindastóls spilar nú þrjá leiki á fjórum dögum sem er nú með miklum ólíkindum. Á morgun mæta stelpurnar sameiginlegu liði Þórs og Hamars í Síkið og á þriðjudag halda Stólastúlkur í Grafarvoginn þar sem Fjölnir B verður andstæðingurinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir