Ná Stólarnir í tvö stig gegn Keflvíkingum í kvöld?
Það er stórleikur í Síkinu í kvöld en þá mæta Keflvíkingar til leiks. Liðin eru svo sem ekki á ólíku róli í deildinni, gestirnir í þriðja sæti með 26 stig en lið Tindastóls í sjötta sæti með 22 stig. Lið Tindastóls hefur unnið fjóra leiki í röð og virðist hafa fundið taktinn en hafa ekki spilað í hálfan mánuð og spennandi að sjá hvort hvíldin komi liðinu til góða. Leikurinn hefst kl. 20:15.
Keflvíkingar léku í undanúrslitum VÍS bikarsins fyrir viku og má þar sætta sig við súrt tap gegn Stjörnunni eftir framlengdan leik. Stjarnan varð síðan bikarmeistari eftir kröftuga frammistöðu gegn liði Þórs úr Þorlákshöfn. Gestirnir eru þekkt stærð í íslenskum körfubolta og hafa á að skipa öflugum hópi leikmanna og má sem dæmi nefna Mustapha Heron, Halldór Garðar, Darius Tarvidas, Hörð Axel, Milka, Jaka okkar Brodnik og Val okkar Valsson.
Ekki er annað vitað en að Baldur Þór geti teflt fram sínu sterkasta liði. Javon Bess virðist hafa hrist af sér meiðslin sem óttast var að gætu komið í veg fyrir að hann spilaði meira með Stólunum. Þau munu ekki hafa verið jafn alvarleg og í fyrstu var talið.
Það er því um að gera að fjölmenna í Síkið og rifja upp gamla stuðningsmannatakta. Munum að hafa með okkur hendurnar til að geta klappað og raddböndin til að hrópa: Áfram Tindastóll!
Það munar heilum helling um það.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.