Meistarar Vals reyndust Stólastúlkum sterkari
Ekkt tókst liði Tindastóls í Bestu deild kvenna í knattspyrnu að fylgja eftir tveimur flottum sigrum með því að leggja Íslandsmeistara Vals á Hlíðarenda í gær og reyndar að öllum líkindum ekki margir sem reiknuðu með því. Yfirleitt hefur liðið mátt þola stóra skelli gegn Valsliðinu en í gær náðu stelpurnar okkar að gera meira vesen fyrir Val en oftast áður. Við vorum meira að segja með forystuna í rétt tæpan hálftíma en á endanum voru gæði meistaranna augljós og þær unnu sanngjarnan 3-1 sigur.
Það voru fínar aðstæður á Hlíðarenda og veðrið fínt. Líkt og reikna mátti með var heimaliðið meira með boltann en lið Tindastóls gerði ágætlega þegar það vann boltann og reyndi að spila honum. Fyrsta mark leiksins var þó af gamla skólanum; María Dögg tók aukaspyrnu rétt utan vítateigs Stólanna, sendi langan fram á vallarhelming Vals þar sem Jordyn nikkaði boltann aftur fyrir sig, Hugrún náði boltanum, lagði hann fyrir sig og átti frábært skot frá hægra vítateigshorninu. Boltinn sveit í laglegum boga, yfir landsliðsmarkvörðinn og rétt undir þverslána. Frábært mark. Með smá heppni hefðu Stólastúlkur getað tvöfaldað forystuna, fékk til þess nokkur færi og það besta sennilega skalli frá Jordyn sem setti boltann hárfínt yfir af markteig. Það var síðan á 38. mínútu og þeirri 40. sem Fanndís Friðriksdóttir gerði tvö laglegt mörk fyrir Val og staðan 2-1 í hálfleik.
Eftir þriggja mínútna leik í síðari hálfleik skallaði Guðrún Björgvinsdóttir boltann í net Tindastóls og þá voru úrslitin ráðin. Saga Ísey, sem kom inn á í hálfleik fyrir Laufeyju, átti lúmskt skot á 64. mínútu sem Fanney varði vel en nær komust gestirnir ekki og Valskonur í raun nær því að bæta við.
Ágætis leikur Tindastóls en lið Vals er gríðarlega vel skipað og líkt og haft var eftir Donna að leik loknum þá er stundum lítið annað hægt en að dást að og læra af mótherjanum. Hann sagði fyrir leikinn að lið Tindastóls væri mætt til leiks til að gera óskunda eða í það minnsta vera með vesen og sannarlega gáfu Stólastúlkur meisturunum leik og þá sérstaklega í fyrri hálfleik.
Stólastúlkur voru án Gabbie Johnson og Löru Margréti í gær en í byrjunarliðið voru komnar Aldís María og Hugrún sem skoraði þetta fína mark. Það var síðan ánægjulegt að sjá að Kristrún María var komin á bekkinn eftir erfið meiðsli og Krista Sól var komin heim úr háskólaboltanum í USA og fékk hún að spreyta sig síðustu mínúturnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.